Þurfa að vekja risann innra með sér

Kári Jónsson er lykilmaður hjá Haukum.
Kári Jónsson er lykilmaður hjá Haukum. mbl.is/Golli

Haukar mættu ÍR í Domino‘s-deild karla í körfuknattleik í kvöld að Ásvöllum. Fyrir leikinn höfðu ÍR tapað síðustu þremur leikjum en Haukar unnið síðustu tvo. Þrátt fyrir nokkuð hetjulega baráttu þá þurftu ÍR-ingar að lúta í parket og játa sig sigraða, 94:88, eftir að hafa leitt í hálfleik 47:49.

Hauk­ar eru með 20 stig í fjórða til sjötta sæti en ÍR-ing­ar eru áfram í 10. sæt­inu með 10 stig, fjór­um stig­um fyr­ir ofan fallsæti en fjór­um stig­um frá því að ná átt­unda sæt­inu.

ÍR mætti klárlega til leiks; leikur liðsins var afslappaður í upphafi; leikmenn tilbúnir að skjóta boltanum og keyra að körfunni. Skotnýting liðsins frábær og margir leikmenn komu að sóknarleiknum. Varnarleikurinn hefði mátt vera mun betri en vegna þess að hann var slakur þá voru Haukar alltaf inni leiknum þrátt fyrir að spila eins og hreindýr á löngum köflum í fyrri hálfleiknum.

ÍR gerðu nákvæmlega það sem undirritaður hefði viljað sjá sem þjálfari; leikmenn sýndu baráttu-og liðsanda sem smitaði frá sér og varð til þess að allir voru tilbúnir að skora.

ÍR-ingar gerðu síðan hættuleg mistök undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir leyfði Haukum að klóra sig aftur inní leikinn. Þetta hafði klárlega mikil áhrif á bæði lið; Haukar komu með breytt lið í seinni hálfleik, sem og ÍR, nema hvað að ÍR-liðið var aðeins beinagrind af því liði sem yfirgaf völlinn fyrir búningsherbergið í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir þessu mistök voru ÍR yfir í hálfleik.

Jonathan Mitchell var öflugur í sókn, sem og Björgvin Ríkharðsson og Sveinbjörn Claessen í fyrri hálfleiknum en ljóst að Mitchell hélt ekki mikið aftur af Brandon Mobley, sem skoraði 18 stig í fyrri hálfleiknum og var eini Haukamaðurinn með eðlilega sóknargetu í fyrri hálfleik.

Þetta átti  hinsvegar eftir að gjörbreytast því Haukaliðið sem mætti til seinni hálfleiks hreinlega afgreiddi ÍR-inga á undir fimm mínútum og breyttu landslagi leiksins það mikið að undirritaður sannfærðist um þeirra sigur þegar rúmar fimmtán mínútur lifðu leiks!

Varnarleik Hauka óx svo ásmegin að sóknarleikur ÍR hreinlega hrundi og skoraði liðið aðeins 17 stig gegn 30 stigum heimamanna. Þarna var grunnurinn að sigrinum lagður en það sem á eftir fylgdi var hinsvegar ekki nærri eins sannfærandi hjá heimamönnum. Þeir náðu aldrei að „kála“ bráðinni með alvöru náðartaki, heldur leyfðu þeir bráðinni að hlaupa um og rembast án þess þó að sleppa takinu á henni.

Það má segja að Haukaliðið hafi spilað geggjaðan bolta í 8 mínútur í þessum leik, sem varð svo nóg til að innsigla sigurinn, sem var í raun ekki tæpur þrátt fyrir aðeins sex stiga mun í lokin.

Liðsheildin sem einkenndi sprækan leik ÍR í fyrri hálfleik hvarf í skuggan á frábæru liðsframtaki og umskiptingu Haukaliðins. Eftirleikurinn var kannski ekki auðveldur eða einfaldur fyrir Hauka, sem gerðu sér erfitt fyrir með klaufalegum sóknum og kæruleysi í vörn, en hann var nokkuð öruggur.

Mér finnst líftími ÍR sem kandídatar fyrir úrslitakeppni á enda. Þessi leikur sýndi mér að liðið er einfaldlega of veikburða til þess að eiga heima í þeirri keppni; sóknarleikur liðsins er skelfilega brothættur og þó baráttan sé vissulega til staðar í vörninni heldur hún ekki gegn traustu sóknarliði nema í hluta af leikjum.

ÍR-ingar þurfa hinsvegar að passa sig á FSu því þeir gætu mögulega strítt þeim, þó ég telji slíka senu á barmi stjarnfræðileikans. ÍR-ingar þurfa að sætta sig við orðinn hlut og mæta til leiks eins og þeir gerðu í fyrri hálfleikinn í kvöld; leikgleðin allsráðandi, baráttan til fyrirmyndar og sóknarleikurinn djarfur! Þannig gætu þeir stolið sigrum.

Haukarnir eru sofandi risi og sýndi það svart á hvítu hér í kvöld hvernig vakna skuli af slíkum lúrum; liðið mætti einfaldlega ekki til leiks varnarlega og sóknin varð fyrir vikið tilviljunarkennd og óskipulögð. Brandon Mobley hélt liðinu á floti í fyrri hálfleiknum, sem góðum rispum frá Kára Jónssyni og Hjálmari Stefánssyni, sem skoraði stórar körfur á mikilvægum augnablikum fyrri hálfleiksins.

Eitthvað hefur Ívar Ásgrímsson látið menn heyra annað en vögguvísur í hálfleik því allt annað lið kom inná völlinn og hreinlega afgreiddi gestina á methraða með frábærri vörn. Eftir þriðja hluta virtist hinsvegar skorta drápseðli í liðið, sem átti svo sannarlega að slátra bráðinni hratt og örugglega en gerði ekki.

Leikurinn mallaði því rólega án vandkvæða fyrir þá en þetta er nákvæmlega vandamál Haukanna; að geta ekki spilað heilan leik góðan og að tapa einbeitingunni í miðjum leikjum. Til þess að liðið geti talið sig eitt af þeim bestu þarf mannskapurinn einfaldlega að vera meira sannfærandi; Kári Jónsson leiðir þetta lið í verki en fær ekki nægilegan stuðning annarra lykilmanna til þess að hægt sé að kalla þetta lið eitt af þeim bestu.

Með svona spilamennsku nær liðið ekki langt í úrslitakeppni en kannski er það jákvætt fyrir liðið að geta séð sína annmarka á þessum tímapunkti svo það geti lagfært þessa hluti fyrir úrslitakeppnina.

Kári Jónsson átti frábæran leik í kvöld, sem og Mobley, sem var lunga leiks með 100% skotnýtingu! Í seinni hálfleik sást svo glitta í það lið sem Haukar geta verið og þá dreifðist stigaskorið á fleiri og mun betra jafnvægi myndaðist.

Í mínum huga eiga Haukar langt í land til að verða frábært lið en eru vonandi á réttri leið. Kári leiddi liðið og Emil Barja átti einnig frábæran leik en hrósið fær liðsheildin fyrir viðsnúningin í hálfleik. Haukar þurfa að vekja risann innra með sér og þessi leikur ætti að sýna þeim hvernig þeir fara að slíku.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is:

Leik lokið eftir að Sveinbjörn klikkaði úr þristinum! Lokatölur 94:88

10sek. - Jæja nú! Núna er staðan 94:88 og ÍR á boltann! Þetta hafa verið undarlegar sekúndur og allt í einu geta gestirnir fræðilega jafnað leikinn! En til þess þarf vissulega kraftaverk... 

56sek. - Sveinbjörn setur tvö þrista í röð! 89:80 En Kari svarar... 91:80

2:00 - Sýnist síðasta von flogin... Vörn Hauka góð, sókn ÍR klaufaleg og loftið að tæmast úr kviðarholi ÍR... Verðskuldaður sigur Hauka í uppsiglingu! 89:74

3:20 - Leikhlé! 85:74 - ÍR að freista þess að gera sitt lokaáhlaup... Haukar virðast ekki munu missa tökin á þessum leik, til þess hafa þeir of mikinn styrk og ÍR ekki nægan. ÍR þurfa stop núna í nokkrar varnir í röð og helst að skora úr 80% sókna sinna næstu 2 mínútur. Allt getur gerst en margt þarf til... 

5:00 - Kári skorar aftur! Hann er að pakka sínum varnarmönnum saman! Haukar að loka leiknum núna held ég! Ekkert púður eftir hjá ÍR 85:72

5:49 - Kári keyrir, skorar og fær vítið! Magnaður leikmaður þessi piltur! Ráða ekkert við þessa vinstri hönd hans... 83:72

6:30 - ÍR-vörnin er orðin mun betri og sést best á slælegri nýtingu heimamenna, sem hafa kannski haldið ÍR dauða úr öllum æðum eftir lélegan þriðja hluta! Gestirnir eiga möguleika að koma sér aftur inní þetta en verða að nýta sín fær betur... 81:72

7:21 - Kári skorar auðvelda körfu eftir loftbolta frá Mobley... Mitchell fær á sig sóknarvillu.. Sæþór skorar fyrir ÍR... 79:70

3.hluti allur! 77:66 - Sóknarleikur ÍR hrundi á meðan Haukar bættu bæði vörn og sókn, sérstaklega sína vörn. ÍR hefur engin svör og hafa sóknir þeirra verið sérlega klaufalegar og tilviljunarkenndar. Varnarleikur ÍR batnaði EKKERT milli hálfleikja og helsta ástæða þess að þeir eru núna tæplega 15 stigum undir, eftir að hafa leitt í hálfleik!!! Fjórir leikmenn ÍR hafa skorað 10 stig eða meira en það var mestmegnis í fyrri hálfleik og í þeim seinni hafa lykilmenn verið steingeldir sóknarlega. Haukar hafa hinsvegar séð villu síns vegar þegar þeir áttuði sig á því að ÍR hafði skorað tæp 50 stig á þeirra heimavelli og sóttu varnarleikinn sinn; niðurstaðan hefur verið svo afgerandi að ég sá sigur þeirra fyrir mér þegar 3mínútur voru búnar af þriðja hlutanum! Svo einfald var sú sýn. Kári og Mobley hafa verið svakalegir í sókninni og liðsvörnin frábær í seinni háfleik. 

1:40 - Útaf þessum 9 stiga mun sem Haukar náðu á fyrstu mínútum hálfleiksins þá hefur sóknarleikur ÍR alveg riðlast úr skorðum; núna reyna þeir að að skjóta á fyrsta tempói og það hefur EKKERT gengið! Sóknarleikur sem leit vel út hefur fölnað verulega og núna þurfa ÍR-ingar lítil kraftaverk til þess að skjóta sig aftur inní leikinn og ef það gerist þá verða Haukar líklega ennþá með stjórnartaumana á leiknum því lið gestanna hefur einfaldlega hrunið andlega! 76:58

3:51 - Kári keyrir á Daða, skorar og fær vítið! Svona viðsnúning á hálfu beggja liða yfir einn hálfleik hef ég bara ekki séð í háa herrans tíð! 72:56

4:45 - Haukar hafa tekið öll völd á vellinum; til þess að áorka þessum viðsnúningi þurftu heimamenn aðeins að snúa "volume" takkanum á vörninni upp... ÍR-ingar hafa engin svör við þessum varnarleik og hafa ekki náð að fylgja þeim hluta Hauka eftir heldur... þetta stefnir í algera slátrun heimamanna. Leikur gestanna hefur hrunið eins og spilaborg á nokkrum mínútum. Alveg magnað dæmi að horfa uppá! Barja setur þrist á meðan ekkert gengur upp hjá ÍR... 69:54

6:02 - Mobley klikkar úr sínu fyrsta skoti í leiknum! 

6:31 - Mobley setur annan þrist!!! Jesús minn almáttugur!!! Hvað er að gerast hérna? Hann er með 100% nýtingu og 24 stig!!! Ég get sagt ykkur það! ÍR tekur leikhlé til að finna liðið sem spilaði fyrri hálfleikinn því það er allt annað lið hérna á vellinum núna! 60:51

7:30 - ÍR ætlar ekki að halda á spilunum! Haukar valta yfir þá hérna í upphafi seinni hálfleiks. Varnarleikurinn orðinn mun beittari hjá heimamönnum og ÍR hefur ekkert svar... 55:51

8:24 - Haukar byrja mjög vel; stoppa ÍR í fyrstu sókn þeirra, og Mobley setur þrist!!! Kauði með 21 stig og 100% nýtingu! 52:51

Hálfleikur! 47:49 - ÍR hafa komið í leikinn tilbúnir að taka Hauka á; þeir eru grimmari, ákveðnari í öllum aðgerðum, skipulagðri og síðast en síst tilbúnir að skjóta boltanum og keyra upp að körfunni. Þetta hefur skilað þeim frábærum sóknarleik hérna á móti Haukum á gríðarlega erfiðum útivelli. Það er hinsvegar eitt að gera slíkt í einum hálfleik og þó ÍR-ingar hafi náð frábærum hálfleik að Ásvöllum þá þýðir það alls ekki að þeir komi með sama lið í seinni hálfleik, það sama má vissulega segja um Hauka. Hinsvegar, þá er þetta algjört dauðafæri, miðað við hvernig leikurinn hefur spilast fyrir ÍR, að sigra hérna í kvöld. Til þess þurfa ÍR-ingar að halda áfram þessum óheflaða leik sínum með sama sjálfstrausti; þetta er aftur á móti alltaf gríðarlega erfitt fyrir gestaliðið, sérstaklega þegar gestaliðið er áberandi veikara liðið! Haukar eru í erfiðu stöðunni; þeir þurfa að breyta leik sínum undir þeim kringumstæðum að hafa skorað 47 stig í einum hálfleik! Ekki alltaf auðvelt því þeir þurfa að skipta öllum sóknarfókus út fyrir varnarleikinn, sem verður að breytast til þess að þeir sigri leikinn. Verður áhugavert að sjá hvaða lið mæta til leiks eftir hlé. 

1:30 - ÍR komnir í svæðisvörn. Stoppar ekki Kristinn Marínóson sem skorar undir körfunni. Vilhjálmur Theodór svarar með þrist og gestirnir að taka frumkvæðið aftur með því að stela boltanum og skora! ÍR að gera góða hluti hérna... 45:48

2:41 - Kári skorar, kominn með 12! Hann og Mobley hafa borið upp sókn liðsins, sem og frábærar körfur, 6 stig, frá Hjálmar. ÍR-ingar eru að spila þetta mjög vel, hafa leitt leikinn og þó þeir missi forystuna reglulega niður þá hefur liðið spilað sig mjög vel inní leikinn og búa að sjálfstrausti og burðum til að viðhalda þessari spilamennsku... 41:43

4:30 - Nú hefur Mitchell setið á bekknum smá og það hefur virkjað varamenn jafnt sem aðra til þess að láta meira til sín taka í sókninni. Þetta hefur skilað þvi að 8 leikmenn ÍR hafa skorað! Frábært fyrir þá og þetta er ástæðan fyrir að þeir leiða 35:42

5:12 - Daði Berg skorar og fær svo villu í næstu vörn sinni... verulega ósáttur og ég held að ég sé sammála honum, rangur dómur. Þetta var hans þriðja villa og hann fer útaf. Búinn að spila vel... 34:39

6:05 - Hjálmar kemur sínum til bjargar! Keyrir, skorar og fær víti á mjög mikilvægu augnabliki... skotklukkan að renna út.. 32:37

6:40 - Haukar aldeilis ekki að jafna neitt! ÍR með frábæran kafla og staðan orðin 29:37

7:37 - Mitchell er með 13 stig og 75% nýtingu! Mobley er með 13 stig og 100% nýtingu!!!!!!!!

8:43 - Kári setur þrist! Mitchell svarar! Haukar virðast aðeins að jafna sig... 29:31

1.hluti allur! 26:28 - Hjálmar setti þrist í spjaldið ofaní! Kári setti annan! Finnur Atli skorar á lokasekúndu! Svona komust Haukar aftur inní leikinn! Þessu verða gestir að passa sig á. Þeir hafa klúðrað frábærum hluta með 30sek. bulli! Núna verður þetta enn erfiðara fyrir þá og þeir verða að halda pressunni á Haukum... skotnýting þessa hluta hefur verið snarundarlega frábær! Vonandi heldur það áfram!

1:24 - Mobley fékk á sig sóknarvillu og svo varnarvillu í næstu vörn... kominn með 2 og fer útaf, pirraður! Haukarnir eru eitthvað pirraðir, enda engin furða, þeir stjórna ekki því sem gerist hérna á vellinum, ÍR sér um það, enda hafa þeir komið mun ferskari, ákveðnari og grimmari til leiks hérna! Þetta er akkúrat byrjuna á þeirri senu sem ég hafði velt upp fyrir leik; ÍR að spila glimrandi sóknarbolta og frábæra vörn, í bland við lélegt og andlaust Haukalið = ÍR á möguleik í þessum leik! 18:26

2:45 - Bæði lið að skjóta yfir 70% og þá öll skot talin með!!! Galið! 18:24 Varnarleikurinn ætlar ekki að bera sóknina yfirliði

3:15 - Mobley svarar tvistinum frá Mitchell með stórum þrist! Magnað að sjá hittnina í leiknum! með ólíkindum alveg! Björgvin setur þrist, Mobley svarar með troðslu og staðan 15:22

5:00 - Sveinbjörn Claessen setur þrist! Frábært að sjá hvernig ÍR koma til leiks... þessu verða þeir að viðhalda skynsamlega í leiknum, ekki missa sig í svona opnum leik. 10:17

6:00 - Staðan 8:14 og leikmenn að hitta vel; Mitchell, Mobley að hitta báðir, baráttan ágæt þó menn gæti verið grimmari í vörn.... en ÍR-ingar hafa komið hingað með allar byssur uppi og spila með sjálfstraustið í lagi...

8:00 - Björgvin byrjar leikinn á að stela boltanum og troða! Mobley svarar og Svenni setur gott skot niður... byrjar léttleikandi og menn að setjann.... Brandon skorar svo aftur og leikurinn fer vel af stað... Björgvin setur svo þrist!!! 6:7

Leikur hafinn! 

Byrjunarlið Hauka: Finnur Atli, Emil Barja, Kári Jóns, Brandon Mobley og Haukur Óskars. ÍR: Svenni Claessen, Jonathan Mitchell, Vilhjálmur Theodór, Björgvin Hafþór og Daði Berg.

19:07 - Til þess að ÍR nái að halda leiknum þannig spilandi að það geti stolið sigrinum þarf liðið að spila mjög þéttan og agaðan leik; ekki hleypa Haukum í nein áhlaup; spila liðssóknarleik og verulega sterkan varnarleik þannig að munurinn fari aldrei í mikið meira en 8 stig. Haukar eru með svo mörg sóknarvopn að það verður erfitt fyrir gestina að ætla að hlaupa þeirra leik og halda í við þá. ÍR verður að róa leikinn og velja skot sín vel og koma sem flestum af sínum leikmönnum vel inní leikinn sóknarlega. Þetta verður hinsvegar aldrei nóg ef liðsvörnin heldur ekki aftur af klóm Haukanna í sókninni. Lykilmenn ÍR þurfa virkilega að stíga fram en eins og þekkt er þá hefur Jonathan Mitchell verið að skora fáránlega háa prósentu stiga liðsins í síðustu leikjum. Haukar ættu að gera sér auðvelda músarindilsmáltíð úr ÍR í kvöld og er kannski það sem liðið þarf til að vakna af þessum blundi... Ef bæði lið spila af eðlilegri getu þá ættu Haukar einmitt að gera það...

18:59 - Jæja, leikur sem flestir veðja á heimasigur en eins og deildin hefur spilast er best að hafa allan vara á. ÍR eru með bakið upp við vegg að mínu viti; þurfa að vinna til þess að eiga möguleika á úrslitakeppni... einfalt! Haukarnir eru hinsvegar ekki í sömu nauðsyn en klárt mál að þeir líta á þennan leik sem skyldusigur. Pressan er á Haukum... ÍR-ingar eru að ég held ekki nægilega hungrað lið til þess að þeir setji pressuna á sig eins og ég hef lýst að ofan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert