Ekki auðvelt að vinna lið með Loga

Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls.
Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls. mbl.is/Golli

„Þetta var fínn leikur fyrir sjálfstraustið, nú höfum við unnið tvo leiki í röð og það er kominn allt annar taktur í liðið," sagði Kári Marísson aðstoðarþjálfari Tindastóls við mbl.is eftir sigurinn á Njarðvík í kvöld, 88:79, í Dominos-deild karla í körfuknattleik á Sauðárkróki.

„Þetta var fyrst og fremst sigur góðrar liðsheildar, við fengum mjög gott framlag frá öllum leikmönnum, bekkurinn var líka mjög góður og skilaði miklu. Við þurftum á því að halda á móti mjög vel skipulögðu og góðu liði Njarðvíkinga með frábæra einstaklinga innanborðs.  

Breiddin í liðinu hjá okkur er mjög góð, og okkur tókst þó nokkuð vel að halda aftur af Hauki Helga, og það munar ekki svo litlu.  En það er ekki auðvelt að vinna lið sem hefur Loga Gunnarsson í sínum röðum,“ sagði Kári að lokum.

Gamli dísillinn er seinn í gang í kulda

„Þetta var erfitt, en það hafðist, vissulega var byrjunin brösótt, en það er eins og Svabbi segir, Gamli dísillinn er seinn í gang í kulda", sagði Helgi Rafn Viggósson fyrirliði Tindastóls.

„En við tókum okkur saman og rifum okkur upp, en auðvitað er það erfitt að missa þá svona frá okkur strax í byrjun. Þetta var hraður og skemmtilegur leikur, alveg eins og við viljum hafa þetta og menn komu sjóðheitir af bekknum og þar fengum við fínt framlag.  Nú er bara að halda áfram og gefa ekkert eftir,“ sagði Helgi Rafn við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert