„Nákvæmlega eins og ég vildi hafa þetta“

Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson, leikmenn KR, með …
Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson, leikmenn KR, með sigurverðlaunin fyrir bikarmeistaratitil liðsins. mbl.is/Golli

„Þetta var nákvæmlega eins og ég vildi hafa þetta, nema það hefði verið gott að klára leikinn aðeins fyrr. Þetta var mjög gaman og algerlega frábært,“ sagði Helgi Már Magnússon i samtali við mbl.is eftir að KR hafði tryggt sér bikarmeistaratitilinn í körfuknattleik karla með 95:79 sigri gegn Þór Þorlákshöfn í dag.

Helgi Már sem lék að öllum líkindum sinn síðasta bikarúrslitaleik hér á landi var stigahæstur í liði KR í leiknum með 26, en Helgi Már skoraði körfur á mikilvægum augnablikum og var valinn besti leikmaður vallarins að leik loknum. 

„Þegar við náðum góðu forskoti þarna um undir lok leiksins þá fann maður að þetta væri að detta í hús. Þeir hefðu alveg getað komið sér inn í leikinn aftur og voru búnir að koma með mörg góð áhlaup í leiknum, en líkurnar voru með okkur,“ sagði Helgi Már sem var augljóslega mjög létt.

„Ég er kallaður gamli maðurinn í liðinu af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, en gamli maðurinn stóð sig ágætlega. Það er hins vegar liðið sem vinnur þetta allir saman. Það var góð stemming í liðinu og allir vel gíraðir. Þegar svo er þá er erfitt að ráða við okkur,“ sagði Helgi enn fremur.

„Það er gríðarlega gott að ná að landa þessum titli og nú er bara að landa einum titli í viðbót og þá getur maður hætt sáttur,“ sagði Helgi Már sigurreifur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert