Umfram allt stoltur af liðinu

Það var hart barist í leik liðanna í dag.
Það var hart barist í leik liðanna í dag. mbl.is/Golli

„Vissulega er ég svekktur, en umfram allt annað er ég hins vegar stoltur. Ég er stoltur af liðinu mínu og við lögðum allt í leikinn. Við mættum frábæru liði hér í dag og við vorum í vandræðum með varnarleikinn í seinni hálfleik og það varð til þess að við töpum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, eftir 95:79 tap liðsins gegn KR í úrslitum Powerade-bikarsins í dag. 

„Þeir skora meira en 50 stig í seinni hálfleik og þegar við reyndum að koma Michael Craion út úr leiknum þá opnaðist fyrir skyttur liðsins í staðinn. Frammistaða Helga Más Magnússonar hér í dag ber merki þess að hann var að spila sinn síðasta bikarúrslitaleik. Helgi Már var stórkostlegur og ég uni honum það vel að standa uppi sem sigurvegari hér í dag,“ sagði Einar aðspurður um hvað hefði skilin liðin að í leiknum.

„Eftir að KR komst í þægilega forystu þá þurfum við að taka áhættu og við náðum ekki nógu öflugum varnarleik til að ná lokaáhlaupi og þar af leiðandi töpuðum við leiknum. Við þurftum að hafa mikið fyrir því að komast í þennan bikarúrslitaleik og það voru eingöngu tveir í hópnum sem höfðu leikið í bikarúrslitum áður. Þetta fer í reynslubankann og ég hef trú að þetta tap mun efla okkur í framhaldinu,“ sagði Einar um frammistöðu Þórs í leiknum og framhaldið hjá liðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert