„Veit að við getum spilað betur“

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari UMFN.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari UMFN. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga var ekki alltof ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld, þegar Njarðvík lagði ÍR að velli í Breiðholtinu 83:76 í Dominos-deildinni. 

ÍR-ingar voru án Bandaríkjamannsins Jonathans Mitchell og Friðrik sagði að slíkir leikir geti verið snúnir. „Það er alltaf pínu snúið að spila við lið sem siglir lygnan sjó. Lið sem hefur allt að vinna og ekki með bandaríska leikmanninn sinn. Þeir börðust fyrir sínu og aðrir leikmenn þeirra bættu við sig snúningi. Í upphafi fannst mér bæði liðin vera tilbúin í leikinn en svo greip um sig pínu kæruleysti hjá okkur og þeir gengu bara á lagið. Eftir það var þetta mjög erfitt enda náðum við aldrei að slíta þá almennilega frá okkur. Ég er fyrst og fremst ánægður með að fara héðan með tvö stig en veit að við getum spilað betur,“ sagði Friðrik í samtali við mbl.is. 

Spurður um hvort Njarðvíkurliðið sé á réttu róli nú þegar nokkrar umferðir eru eftir af deildakeppninni og farið að styttast í úrslitakeppnina. Njarðvík er í 4. - 5. sæti með 22 stig eins og Þór Þorlákshöfn. 

„Það er um það bil mánuður í úrslitakeppnina og ég tel að við séum á prýðilegri leið, þannig lagað. Það eru hlutir sem við þurfum að vera betri í og ég tel að tíminn sem við höfum ætti að nýtast okkur. Við erum svo sem ekki búnir að spila marga leiki með nýjustu tvo leikmennina sem komu um áramót og eftir áramót. Með hverjum leiknum náum við vonandi að kynnast örlítið betur. Mér finnst stundum eins og hæfileikarnir flækist fyrir okkur. Þá vantar meira flæði og meiri þolinmæði í að gera ákveðna hluti sem ég vil meina að geti nýst okkur á mjög jákvæðan hátt. Mér finnst koma augnablik við og við þar sem við erum pínu óþolinmóðir. Í þessu erum við að vinna,“ sagði Friðrik ennfremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert