„Ótrúlegar framfarir“

Tryggvi Snær Hlinason og Pétur Guðmundsson eftir leikinn á Akureyri …
Tryggvi Snær Hlinason og Pétur Guðmundsson eftir leikinn á Akureyri í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Pétur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmiðherji í körfuknattleik fylgdist grannt með leik Þórs og ÍA í 1. deildinni á Akureyri í kvöld. Hann er búsettur í Bandaríkjunum en kom til landsins í frí og gerði sér fer norður til að fylgjast með Tryggva Snæ Hlinasyni, leikmanni Þórs, sem er 2,16 m á hæð en Pétur, sem lék um tíma í NBA-deildinni, er tveimur cm hærri. 

„Tryggvi er geysilega efnilegur,“ sagði Pétur í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í kvöld. „Nú er bara spurning um að finna út hvað er best fyrir hann að gera; hvernig hann lærir sem mest og best á réttum hraða og á hvaða stað. Hann skilur leikinn ótrúlega vel miðað við að hafa æft körfubolta í tvö ár og hefur sýnt ótrúlegar framfarir á svona stuttum tíma,“ sagði Pétur.

Bárðdælingurinn ungi sló í gegn síðastliðið haust þegar litlu munaði að Þórsarar sigruðu Íslandsmeistara KR í bikarkeppninni. Pétur skoðaði myndbandsupptöku með tilþrifum Tryggva úr þeirri viðureign og trúði vart eigin augum. „Þetta video hefur farið mjög víða og ég veit að margir þjálfarar í Bandaríkjunum hafa horft á það,“ sagði Pétur.

Tryggði sagðist, í samtali við Morgunblaðið fljótlega eftir leikinn við KR í fyrrahaust, stefna að því að fara í nám til Bandaríkjanna og leika þar körfubolta. Pétur segist aðspurður myndu mæla með því að Tryggvi færi utan sem fyrst í stað þess að leika eitt ár hér heima með Þór í úrvalsdeildinni. „Ég fór ungur út og þekki þetta. Hann þyrfti ekki endilega að fara í háskóla strax en gæti farið í skóla þar sem eru strákar á hans aldri, 17 til 19 ára, og öll áhersla lögð á nám og körfubolta. En þetta er auðvitað spurning um hvað foreldrar hans vilja og hvað strákurinn treystir sér til að gera,“ sagði Pétur Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert