Kaninn nennti ekki að vera hérna

Charles Garcia og félagar í Grindavík eru úr leik.
Charles Garcia og félagar í Grindavík eru úr leik. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var niðurlútur eftir að hans menn töpuðu, 83:62, fyrir KR í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Grindavík er þar með komið í sumarfrí en KR í undanúrslit.

„Við byrjum illa og „rest is history,““ sagði Jóhann við mbl.is eftir leikinn í kvöld. KR-ingar komust í 16:2 eftir rúmlega þriggja mínútna leik og eftir það var í raun aldrei spurning hvernig leikurinn myndi fara.

„Það hefur gengið á ýmsu, vonbrigði og ekki vonbrigði. Það er líka hægt að spyrja sig hvort við séum með það gott lið til þess að vera í baráttunni,“ sagði Jóhann aðspurður hvort tímabilið væri vonbrigði og var ekki viss hvort lokastaðan gæti alveg rétta mynd af vetrinum:

„Meiðsli lykilmanna, Kanavesen og ég hef gert fullt af mistökum og læri vonandi af þeim. Svona er þetta bara,“ bætti Jóhann við en Grindvíkingar skiptu tvívegis um erlendan leikmann á tímabilinu.

Athygli vakti að Charles Garcia sat stóran hluta leiksins á bekknum í kvöld. „Ég er bara búinn að gefast upp á honum. Ég er búinn að vera nokkuð þolinmóður það sem af er. Hann er bara búinn að kaupa sér sandala og stuttbuxur og er á leiðinni til Kaliforníu. Hann nennti ekkert að vera hérna, alveg frá byrjun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert