Snæfell Íslandsmeistari

Snæfellskonur lyfta Íslandsbikarnum á Ásvöllum í kvöld.
Snæfellskonur lyfta Íslandsbikarnum á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Eggert

Snæfell varð í kvöld Íslandsmeistari í körfuknattleik kvenna eftir 67:59 sigur sinn á deildarmeisturum Hauka í Schenker-höllinni í kvöld. 

40. Leik lokið með 67:59 sigri Snæfells sem er þar af leiðandi Íslandsmeistari í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik. 

39. Haukar - Snæfell, 57:65. Helena minnkar muninn í fimm stig af vítalínunni. Andrea skorar tveggja stiga körfu fyrir Snæfell og Sólrún Inga svarar með þriggja stiga körfu fyrir Hauka. Það eru 47 sekúndur eftir og Snæfell er með boltann og fjórum stigum yfir. Berglind Gunnarsdóttir veður upp að körfunni og skorar og fær vítaskot að auki þegar 33 sekúndur eru eftir. Berglind skorar úr vítaskotinu og munurinn er sjö stig. Skot Hauka geigar og Snæfell er með boltann þegar 25 sekúndur eru eftir. Haiden Denise Palmer fer á vítalínuna og skorar úr öðru skotinu. Snæfell er átta stigum yfir þegar 20 sekúndur eru eftir. Helena fer á vítalínuna og minnkar muninn í sex stig. Gunnhildur fer á vítalínuna hinum megin og eykur muninn í átta stig á nýjan leik. Það eru 16 sekúndur eftir og Haukar taka leikhlé.  

38. Haukar - Snæfell, 50:57. Áfram skiptast Helena Sverrisdótir og Haiden Denise Palmer á að skora fyrir lið sín. Íslandsmeistarabikarinn er á leið í Stykkishólminn eins og staðan er núna. Helena Sverrisdóttir er hins vegar ekki hætt og minnkar muninn í sjö stig en Bryndís Guðmundsdóttir svarar í sömu mynt fyrir Snæfell. Helena skorar þá bara aðra þriggja stiga körfu og munurinn aftur sjö stig. 

36. Haukar - Snæfell, 42:52. Pálína Gunnlaugsdóttir minnir á sig með tveimur stigum fyrir Hauka, en eins og áður svarar Snæfell um hæl með tveggja stiga körfu. Helena Sverrisdóttir skorar tveggja stiga körfu fyrir Hauka, en Haiden Denise Palmer labbar í gegnum vörn Hauka og skorar. Haukar verða að herða að vörnina ef liðið ætlar að gera alvöru úr áhlaupum sínum. Helena skorar eitt stig af vítalínunni. Snæfell svarar með þriggja stiga körfu. 

33. Haukar - Snæfell, 37:45. Helena Sverrisdóttir skorar fyrstu stigin í þriðja leikhluta. Spurning hvort að hún sé að vakna til lífsins og leiða endurkomu Hauka. Haiden Denise Palmer svarar fyrir Snæfell. Helena með fjögur stig í röð og munurinn aftur sex stig, en Haiden Denise Palmer er funheit og skorar hinum megin. 

30. Þriðja leikhluta er lokið. Haukar - Snæfell, 33:41. Gunnhildur Gunnarsdóttir veður upp völlinn og skorar og fær vítaskot að auki sem hún hittir úr. Hugrún Eva kemur forskotinu aftur í tíu stig með sniðskoti. Silvía Rún lagar stöðuna fyrir Hauka af vítalínunni. Haukar byrjuðu leikhlutann betur, en Snæfell hefur náð vopnum sínum á nýjan leik og hefur átta stiga forskot fyrir lokaleikhlutann.  

28. Haukar - Snæfell. 28:33. Haiden Denise Palmer skorar fyrstu stig Snæfells í þriðja leikhluta og Jóhanna Björk svarar um hæl fyrir Hauka. Helena hefur tveimur af sextán skottilraunum sínum utan af velli. Snæfell hefur bara skorað tvö stig í seinni hálfleik.   

23. Haukar - Snæfell, 26:31. Silvía Rún tekur mig á orðinu og skorar þriggja stiga körfu fyrir Hauka og minnkar muninn í sjö stig. Jóhanna Björk bætir um betur með tveimur stigum af vítalínunni og munurinn er kominn niður í fimm stig. 

20. Haukar - Snæfell, 21:31. Gunnhildur Gunnarsdóttir skorar með sniðskoti og Snæfell er með tíu stiga forskot í hálfleik. Auður Írís er stigahæst í liði Hauka með fimm stig, en Haiden Denise Palmer hefur verið atkvæðamest í liði Snæfells með 10 stig. Ingvar Guðjónsson og Henning Henningsson munu líklega nýta hálfleikinn til þess að fara yfir sóknarleikinn sem hefur verið stirður og margir leikmenn Hauka virka stressaðir í sóknaraðgerðum sínum. Haiden Denise Palmer hefur leikið gríðarlega sterka vörn á Helenu Sverrisdóttur og Haukar verða annað hvort að finna leiðir til þess að losa um Helenu, fá aðra leikmenn betur inn í sóknarleikinn eða hvoru tveggja sem væri besti kosturinn. 

18. Haukar - Snæfell, 21:29. Gunnhildur skorar tvö stig af vítalínunni fyrir Snæfell og hinum megin losnaði Helena úr strangri gæslu Haiden Denise Palmer um stundarsakir og lagaði stöðuna fyrir Hauka.

16. Haukar - Snæfell, 19:27. Berglind skorar fyrsta stig leikhlutans af vítalínunni og eykur muninn fyrir Snæfell. Dýrfinna svarar fyrir Hauka og minnkar muninn í tvö stig. Bryndís Guðmundsdóttir skorar þriggja stiga körfu fyrir Snæfell og eykur muninn í fimm stig. Auður Írís minnkar muninn í þrjú stig fyrir Hauka, en Bryndís svarar að bragði með annarri þriggja stiga körfu og bætir síðan um betur með tveggja stiga körfu.  

10. Fyrsta leikhluta er lokið. Haukar - Snæfell, 15:18. Vörn Snæfells hefur náð að halda Helenu Sverrisdóttur í skefjum hingað til og hún skoraði fyrstu stig sín þegar rúmar 20 sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Haiden Denise Palmer skorar tíunda stig sitt með þriggja stiga körfu undir lok leikhlutans og kemur Snæfelli þremur stigum yfir. 

8. Haukar - Snæfell, 12:12. Helena Sverrisdóttir er ekki enn kominn á blað fyrir Hauka og það munar um minna fyrir heimaliðið. 

4. Haukar - Snæfell, 9:8. Bryndís Guðmundsdóttir, leikmaður Snæfells, brýtur ísinn af vítalínunni. Pálína Gunnlaugsdóttir kemur Haukum á bragðið með þriggja stiga körfu. Haiden Denise Palmer svarar fyrir Snæfell með tveggja stiga körfu hinum megin. Auður Írís skorar aðra þriggja stiga körfu Hauka í leiknum. Gunnhildur Gunnarsdóttir jafnar metin fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu og Berglind systir hennar kemur Snæfell yfir með sniðskoti. Þriggja stiga sýning Hauka heldur áfram og nú er það Jóhanna Björk sem stigur fram á sviðið.  

1. Leikurinn er hafinn. Haukar vinna uppkastið. 

Byrjunarlið Hauka: Helena, Auður Írís, Jóhanna Björk, Pálína og Silvía Rún.

Byrjunarlið Snæfells: Haiden Denise Palmer Bryndís, Gunnhildur, Berglind og María. 

0. Umgjörðin er afar flott hér í Schenker-höllinni og mikil stemming í húsinu. Bæði lið rækilega studd og aðeins örfá sæti laus. 

0. Það er nú þegar orðið þétt setið af Snæfellingum í gestastúkunni, það er hins vegar enn frekar gisið Haukamegin. Vonum að heimamenn séu að gæða sér á hamborgurum og fylli svo stúkuna. 

0. Haukar og Snæfell urðu í efstu tveimur sætunum í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í vetur, en Haukar urðu deildarmeistarar og Snæfell hafnaði sæti neðar. 

0. Liðin hafa mæst alls átta sinnum í vetur og borið sigur úr býtum í fjórum leikjum hvort. Liðin hafa skipst á að vinna í úrslitarimmunni og heimaliðið hefur haft betur í leikjunum hingað til í rimmunni. 

0. Helena Sverrisdóttir er efst í helstu tölfræðiþáttum hjá Haukum í úrslitaeinvíginu og Haiden Denise Palmer hjá Snæfelli.

Helena hefur skorað 24,3 stig, tekið 13,2 fráköst og gefið 6,9 stoðsendingar að meðaltali í leikjum liðanna í einvíginu.

Haiden Denise Palmer hefur hins vegar skorað 25,9, tekið 11 fráköst og gefið 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leikjum liðanna í einvíginu. 

Helena Sverrisdóttir reynir að komast framhjá Haiden Palmer í leiknum …
Helena Sverrisdóttir reynir að komast framhjá Haiden Palmer í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert