Clippers í sumarfrí - tveir oddaleikir

Damian Lillard og Blake Griffin í leik Portland og Clippers …
Damian Lillard og Blake Griffin í leik Portland og Clippers í nótt. AFP

Portland Trail Blazers sló Los Angeles Clippers út úr úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt á meðan Indiana Pacers og Miami Heat náðu í oddaleiki með sigrum í sjöttu viðureignum sínum við Toronto Raptors og Charlotte Hornets.

Damian Lillard skoraði 28 stig fyrir Portland og CJ McCollum 20 í sigrinum á Clippers, 106:103, og Portland vann þar með einvígið 4:2. Liðið mætir nú meisturum Golden State Warriors í undanúrslitum Vesturdeildar. Jamal Crawford skoraði 32 stig fyrir Clippers sem hafði náð 2:0 forskoti í einvíginu.

Miami var með bakið upp við vegginn fræga, 3:2 undir gegn Charlotte og á útivelli í nótt, en náði að knýja fram sigur, 97:90, og þar með oddaleik á heimavelli. Dwyane Wade hafði ekki skorað þriggja stiga körfu síðan í desember en setti niður tvær slíkar í nótt og þá seinni á örlagaríku augnabliki undir lokin. Hann gerði 23 stig fyrir Miami, tíu þeirra í fjórða leikhluta. Kemba Walker skoraði 37 stig fyrir Charlotte, sem þarna missti af gullnu tækifæri til að komast í undanúrslit Austurdeildar í fyrsta sinn í fjórtán ár.

Indiana jafnaði í 3:3 gegn Toronto með frábærum endaspretti á heimavelli og vann leikinn 101:83. Paul George skoraði 21 stig fyrir Indiana og tók 11 fráköst en DeMarre Carroll og Cory Joseph gerðu 15 stig hvor fyrir Toronto. Úrslitin ráðast nú í oddaleik í Toronto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert