Lakers ræður þjálfara

Luke Walton, nýr þjálfari Los Angeles Lakers, er hér lengst …
Luke Walton, nýr þjálfari Los Angeles Lakers, er hér lengst til vinstri á myndinni. AFP

Stórveldið í NBA-deildinni í körfuknattleik, Los Angeles Lakers, hefur ráðið Luke Walton sem aðalþjálfara liðsins. Walton tekur við starfinu af Byron Scott sem var látinn taka pokann sinn á dögunum. 

Walton fær ærið verkefni í fyrsta aðalþjálfarastarfi sínu, en honum er ætlað að snúa við gengi liðsins sem bar einungis sigur úr býtum í 21 af 82 leikjum sínum á yfirstandandi leiktíð. 

Walton er öllum hnútum kunnugur hjá Los Angeles Lakers, en hann lék með liðinu á árunum 2003 til 2012 og varð meistari með því árin 2009 og 2010.

Walton hefur verið aðstoðarþjálfari Steve Kerr hjá Golden State Warriors undanfarin tvö ár og hlaut reynslu af því að stýra liði í NBA-deildinni, en hann stýrði liðinu á meðan Kerr var fjarverandi vegna bakmeiðsla í byrjun tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert