San Antonio í vanda

Russell Westbrook fór á kostum í nótt.
Russell Westbrook fór á kostum í nótt. AFP

Oklahoma City Thunder tók í nótt forystuna í rimmunni gegn San Antonio Spurs 3:2 í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Oklahoma sigraði 95:91 í San Antonio í Texasríki. 

San Antonio tapaði einungis einum heimaleik í deildakeppninni í vetur en hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í rimmunni gegn Oklahoma. Í nótt var San Antonio um tíma þrettán stigum yfir en það dugði ekki til. 

Síðasta leikhlutinn var býsna jafn en Oklahoma gerði betur á lokamínútu leiksins. Þá brást Tony Parker bogalistin bæði af vítalínunni og í opnu skoti. Oklahoma fékk boltann þegar um tíu sekúndur voru eftir og staðan var þá 92:91. Russell Westbrook skoraði og fékk víti að auki sem hann setti niður. Afar klaufalegt hjá San Antonio en atvikið var einnig umdeilt. Kawhi Leonard virtist ná að brjóta á Westbrook. Dómararnir voru ekki á sama máli og Westbrook keyrði að körfunni og fékk þar villu um leið og hann setti boltan ofan í. 

Oklahoma fær nú tækifæri til að slá San Antonio út úr úrslitakeppninni á heimavelli í næsta leik en San Antonio er álitið vera líklegast til að vinna titilinn ásamt Golden State Warriors. 

Westbrook átti stórleik og skoraði 35 stig og Kevin Durant var með 23 stig. Kawhi Leonard var stigahæstur hjá San Antonio með 26 stig og þá hitti Danny Green úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum. 

Svo virðist sem Oklahoma-liðið sé að smella saman á réttum tíma og stórstjörnurnar tvær spila vel þessa dagana. Liðið var í basli í vetur þegar þeir áttu í meiðslum og sérstaklega var Durant lengi frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert