Toronto í úrslitin eftir sigur í oddaleik

Kyle Lowry hjá Toronto sækir að Tyler Johnson hjá Miami …
Kyle Lowry hjá Toronto sækir að Tyler Johnson hjá Miami í kvöld. AFP

Toronto Raptors tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir sigur á Miami Heat í oddaleik undanúrslitaeinvígisins, 116:89.

Toronto vann því einvígið samanlagt 4:3, en Miami knúði fram oddaleik með sigri í fyrrinótt. Í kvöld var allt í járnum lengi vel, en Toronto var sex stigum yfir í hálfleik 53:47. Það var svo fyrst og fremst í fjórða og síðasta leikhlutanum þar sem liðið skóp sigurinn, hafði betur 30:11 í leikhlutanum og fagnaði loks sigri 116:89.

Kyle Lowry fór fyrir Toronto í leiknum með 35 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Hjá Miami skoraði Goran Dragic 16 stig, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Toronto mætir Cleveland Cavaliers í úrslitum austurdeildar en fyrsti leikurinn er aðfaranótt miðvikudags. Úrslitaeinvígi vesturdeildar á milli Oklahoma City Thunder og Golden State Warriors hefst aðfaranótt þriðjudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert