Westbrook var meisturunum erfiður

Russell Westbrook er hér að skora tvö af 27 stigum …
Russell Westbrook er hér að skora tvö af 27 stigum sínum fyrir Oklahoma í nótt. AFP

Oklahoma City Thunder bar sigurorð af meisturum Golden State á útivelli, 108:102, í fyrstu viðureign liðanna í úrslitum vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt.

Russell Westbrook skoraði 27 stig fyrir Oklahoma og Kevin Durant var með 26. Westbrook átti 12 stoðsendingar og tók 6 fráköst og var meisturunum sérlega erfiður í leiknum. Hann átti stóran þátt í að snúa taflinu við fyrir sína menn í seinni hálfleik en Golden State var 13 stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 60:47.

„Hverju eigum við að fagna. Við unnum ekki meistaratitilinn. Við erum að spila í úrslitum vesturdeildarinnar á móti frábæru liði. Það er mikið eftir af þessu einvígi svo við megum ekki vera of spenntir,“ sagði Durant eftir leikinn.

Stephen Curry var atkvæðamestur í liði meistaranna með 26 stig og Klay Thompson kom næstur með 25.

„Þetta er löng sería. Það verður önnur staða fyrir okkur að koma til baka á þessum tímapunkti en það verður gaman að sýna úr hverju við erum gerðir,“ sagði Curry eftir leikinn en þetta var fyrsti tapleikur Golden State í fyrsta leik í úrslitakeppni síðustu tvö tímabilin.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert