Þrykkti í punginn á Adams - Myndskeið

Draymond Green og Kevin Durant í baráttu um boltann.
Draymond Green og Kevin Durant í baráttu um boltann. AFP

Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik, gæti lenti í klandri eftir að hann missti stjórn á skapi sínu og gaf Steven Adams, leikmanni Oklahoma City Thunder, gott spark í punginn í þriðju viðureign liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Brotið átti sér stað í öðrum leikhluta leiksins. Green gerði atlögu að körfu Oklahoma þar sem Nýsjálendingurinn Steven Adams mætti honum. Green þótti Adams hafa brotið á sér og brást við með góðu sparki í fjölskyldudjásnin.

„Þetta hefur gerst áður. Hann er frekar hittinn, karlinn,“ sagði Steven Adams léttur í lund eftir leikinn en Green hefur allmörgum sinnum hegðað sér óíþróttamannslega.

Í þetta sinn gæti hann þó komið liðinu sínu í hættu, en Dahntay Jones, leikmaður Cleveland Cavaliers, var dæmdur í eins leiks bann eftir svipað brot í viðureign Cleveland og Toronto í úrslitaleik Austurdeildarinnar. Bann myndi reynast meisturunum í Golden State dýrkeypt enda er Draymond Green einn mikilvægasti leikmaður liðsins.

Atvikið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert