Messi dýrkar Curry

Stephen Curry er ótrúlegur.
Stephen Curry er ótrúlegur. AFP

Stephen Curry, bakvörður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfubolta, er í miklum metum hjá argentínsku knattspyrnustjörnunni Lionel Messi en hann dásamaði Curry í viðtali við Sports Illustrated.

Curry sagði frá því í mars að hann og liðsfélagar hans hefðu notast við myndbönd af Messi og félögum hans í Barcelona til að bæta leik þeirra í NBA-deildinni en Golden State er ríkjandi meistari í deildinni og hefur þá átt stórkostlegt tímabil til þessa, en á þó að vísu á hættu að detta út fyrir Oklahoma City Thunders í úrslitakeppninni, þar sem staðan er 3:1 fyrir Oklahoma í einvíginu.

„Á meðan ég er hérna í Bandaríkjunum þá ætla ég að reyna að einbeita mér að fótboltanum en ég væri svakalega til í að sjá Stephen Curry spila með Golden State Warriors. Það er magnað að fylgjast með honum,“ sagði Messi.

„Það elska allir að horfa á hann spila. Körfuboltaáhugamenn, liðsfélagar og andstæðingar hans. Við erum mjög svipaðir, bæði hvað varðar hæð og leikstíl.“

„Ef þú horfir á Curry spila eða jafnvel bara hita upp þá sérðu að samband hans við körfuboltann er sérstakt. Það er eins og hann sé tengdur boltanum bæði á líkama og sál. Ég reyni að beita mér þannig líka,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert