Meistararnir unnu þrjá í röð

Stephen Curry fagnar í nótt
Stephen Curry fagnar í nótt AFP

NBA-meisturunum í Golden State Warriors tókst að vinna þrjá leiki í röð gegn Oklahoma City Thunder og mæta Cleveland Cavaliers í úrslitarimmunni um NBA-titilinn í körfubolta. 

Golden State vann í nótt oddaleikinn gegn Oklahoma 96:88 á heimavelli og rimmuna samtals 4:3 eftir að hafa lent 1:3 undir. Er þetta í níunda skipti í sögu NBA sem liði tekst að vinna sig út úr 1:3 stöðu og vinna rimmuna. 

Eins og í sjötta leiknum byrjaði Oklahoma vel og hafði ágæta forystu í öðrum leikhluta 35:22. Þá fór Golden State að bíta frá sér og Klay Thompson hitnaði fyrir utan 3-stiga línuna. Hann setti niður ellefu þrista í sjötta leiknum en hitti ekki úr fyrstu þremur í nótt. Í öðrum leikhluta setti hann niður nokkra slíka og Golden State komst inn í leikinn. Í þriðja leikhluta skoraði Oklahoma aðeins 12 stig og Golden State náði undirtökunum. 

Oklahoma gerði áhlaup undir lok leiksins og minnkaði þá muninn niður í fjögur stig en komst ekki lengra og er úr leik eftir að hafa slegið út stórlið San Antonio Spurs.

Stephen Curry gerði 36 stig og setti niður sjö þriggja stiga skot. Thompson setti niður sex slík og skoraði 21 stig. Kevin Durant var stigahæstur hjá Oklahoma með 27 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert