Fyrsti leikur úrslitarimmu NBA-deildarinnar

Stephen Curry og félagar hans hjá Golden State Warriors hefja …
Stephen Curry og félagar hans hjá Golden State Warriors hefja leik í úrslitavíðureign NBA-deildarinnar í nótt. AFP

Fyrsti leikur úrslitarimmu NBA-deildarinnar á milli Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers fer fram klukkan eitt í nótt. Fyrir þremur vikum hefðu flestir verið tilbúnir að veðja á að þessi lið mættust í úrslitaleiknum en líkurnar á því voru hverfandi fyrir rúmri viku.

Meistararnir í Oakland, Golden State, áttu heldur betur á brattann að sækja og voru 3:1 undir á móti Oklahoma City Thunder í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar. Oklahoma virtist hafa fundið lausnina gegn þessu feiknasterka liði, sem vann 73 leiki á tímabilinu og sló þar með sigramet Chicago Bulls frá árinu 1996.

En svo var ekki, Steph Curry og félagar í Golden State náðu áttum og unnu þrjá leiki í röð og fór rimman 4:3 þeim í vil. Skytturnar í Golden State urðu funheitar en skyttur Oklahoma svellkaldar í þessum síðustu þremur leikjum.

Þrátt fyrir að Billy Donovan, þjálfari Oklahoma, hafi gripið til góðra ráða í rimmunni varð ljóst að eina leiðin til þess að vinna sigur á Golden State væri að vera funheitir af löngu færi og að halda aftur af þriggja stiga skyttum meistaranna. Það er hægara sagt en gert, enda eru Klay Thompson og Steph Curry, leikmenn Golden State, tvær af bestu þriggja stiga skyttum í sögu deildarinnar.

Nú mæta meistararnir Cleveland Cavaliers í úrslitunum annað árið í röð. Það kom á óvart hvað Cleveland stóð uppi í hárinu á Warriors í fyrra, en liðið var án Kyrie Irving og Kevin Love, tveggja mikilvægra leikmanna. Nýr þjálfari Cleveland ætlar að taka sama slag og Oklahoma, reyna að halda í við meistarana og vonast til þess að skjóta betur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert