Öruggur sigur meistaranna

Hart barist í leik Golden State og Cleveland í nótt.
Hart barist í leik Golden State og Cleveland í nótt. AFP

Meistararnir í Golden State sýndu liðsvinnuna og breiddina í liðinu þegar það lagði Cleveland að velli, 104:89, í fyrsta úrslitaleik liðanna um NBA-meistara titilinn í körfuknattleik í nótt.

Leikurinn fór fram á heimavelli Golden State í Oakland og annar leikurinn fer einnig þar fram á sunnudaginn. Shaun Livingston kom sterkur inn af bekknum og var stigahæsti leikmaður Golden State með 20 stig og Draymond Green skoraði 16 stig og tók 11 fráköst. Stephen Curry hafði hægt um sig og skoraði aðeins 11 stig.

Sterkur varnarleikur Golden State gerði Cleveland erfitt fyrir en skotnýting Cleveland af gólfinu var slök, aðeins 32 af 84 skotum fórum í körfuna. Kyrie Irving var stigahæstur í liði Cleveland með 26 stig og LeBron James skoraði 23 stig, tók 12 fráköst og átti 9 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert