Golden State burstaði Cleveland

LeBron James stöðvaður af Draymond Green og Klay Thompson í …
LeBron James stöðvaður af Draymond Green og Klay Thompson í leiknum í nótt. AFP

Golden State Warriors er 2:0 yfir gegn Cleveland Cavaliers í úrslitarimmunni um NBA-titilinn í körfuknattleik eftir stórsigur í öðrum leiknum í Oakland í nótt. 

Meistararnir í Golden State sigruðu 110:77 og hafa þá unnið tvo fyrstu leikina á heimavelli. Næstu tveir verða í Cleveland en vinna þarf fjóra leiki til að verða meistari. Golden State hefur þá unnið fimm leiki í röð því liðið lenti 1:3 undir gegn Oklahoma City Thunder í undanúrslitunum. 

Draymond Green stal senunni í nótt og skoraði 28 stig fyrir Golden State en hann hitti úr 5 af 8 skotum fyrir utan 3-stiga línuna. Stephen Curry og Klay Thompson hittu úr 4 af 8 3-stiga skotum hvor og ljóst er að erfitt er að eiga við meistaraliðið þegar liðsmenn þess hitta svo vel úr þriggja stiga skotunum. 

LeBron James skoraði 19 stig fyrir Cleveland. Hann gerði margt vel fyrir liðið að þessu sinni og skoraði góða vörn. Stal boltanum fjórum sinnum og tók 8 fráköst auk þess að gefa 9 stoðsendingar en á hinn bóginn tapaði hann boltanum sjö sinnum. 

Reynsluboltinn Richard Jefferson sem einhverjir muna eftir sem leikmanni New Jersey Nets kom sterkur inn af bekknum hjá Cleveland og skoraði 12 stig en Kylie Irving var lítil ógn fyrir Golden State og skilaði einungis 10 stigum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert