Curry lét þristum rigna

Stephen Curry með boltann í leiknum í nótt.
Stephen Curry með boltann í leiknum í nótt. AFP

Golden State er aðeins einum sigri frá NBA-meistaratitlinum eftir að hafa lagt Cleveland að velli í fjórða leik liðanna 108:97. Staðan er 3:1 í einvíginu en vinna þarf fjóra leiki.

Leikið var í Cleveland í nótt en heimamenn réðu ekkert við verðmætasta leikmann tímabilsins, Steph Curry, sem setti niður 38 stig og þá var Klay Thompson einnig heitur með 25 stig.

Cleveland komst yfir í 2. leikhluta 55:48 en þá tóku þeir Curry og Thompson til sinna ráða. Þeir létu þristunum rigna á LeBron James og félaga í 3. leikhluta en allt í allt setti Curry sjö þrista niður og liðið í heild sinni 17 þrista, sem er met í leik í úrslitaeinvígi.

James setti niður 25 stig fyrir Cleveland en Kyrie Irving var stigahæstur í þeirra liði með 34 stig.

„Það er ástæða fyrir því að hann er verðmætasti leikmaður deildarinnar. Hann hefur ekki hæðina eða styrkinn til að stýra leikjum líkamlega. Hann þarf að gera það með hæfileikum sínum og það er ekki auðvelt þegar skotin detta ekki. En hann hefur mikla trú á sér, treystir skothendinni og hélt áfram að skjóta. Í kvöld fóru þau niður,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, um Curry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert