Simmons valinn fyrstur í nýliðavalinu

Ben Simmons var valinn fyrstur.
Ben Simmons var valinn fyrstur. AFP

Philadelphia 76ers völdu í gærkvöld framherjann Ben Simmons fyrstan í nýliðavali NBA-körfuboltadeildarinnar. Simmons, sem er aðeins 19 ára gamall, kemur til Sixers frá Louisina-State háskólanum.

Simmons er annar ástralski leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem kemur inn í NBA-deildina með fyrsta valrétti en Andrew Bogut var valinn fyrstur af Milwaukee Bucks árið 2005.

„Ég hef hlakkað til þessa dags í töluverðan tíma. Ég er afar ánægður að hafa skrifað nýjan kafla í sögunni, ekki bara fyrir mig, heldur einnig fyrir Ástralíu,“ sagði Simmons við bandaríska fjölmiðla í gær.

Valið kom í sjálfu sér ekki á óvart en Simmons átti frábært tímabil í háskólaboltanum. Þessi 210 cm framherji skoraði 19,2 stig að meðaltali, tók 11,8 fráköst og gaf 4,8 stoðsendingar með Louisiana State á síðasta tímabili en þar stoppaði hann aðeins eina leiktíð.

Philadelphia veitar ekki af liðsstyrk en liðið vann aðeins 10 leiki af 82 í deildinni á síðasta ári.

Stórveldin Los Angeles Lakers og Boston Celtics áttu næstu valrétti. Lakers tóku framherjann Brandon Ingram úr Duke-háskóla og Celtics völdu Jaylen Brown frá Kaliforníu-háskóla.

Alls koma 14 leikmenn af 30, sem valdir voru í fyrstu umferð, frá löndum utan Bandaríkjanna og það er nýtt met í NBA.

Önnur umferð nýliðavalsins fer fram í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert