Strákarnir völtuðu yfir Georgíu

Íslenski hópurinn á Evrópumótinu í Grikklandi.
Íslenski hópurinn á Evrópumótinu í Grikklandi. Ljósmynd/fiba.com

Íslenska U-20 ára landslið karla í körfu­bolta sigraði Georgíu með miklum yfirburðum, 94:54, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum í B-deild Evr­ópu­móts­ins sem fer fram í Grikklandi.

Strákarnir mæta heimamönnum í undanúrslitum sem eru leikin á morgun en Grikkir hafa unnið alla leiki sína í mótinu hingað til. 

Þrjú efstu liðin vinna sér sæti í A-deild. Ef strákarnir vinna Grikki á morgun eru þeir komnir upp, og spila um 1. sæti á sunnudag. Annars leika þeir um 3. sæti á sunnudag og um leið hreinan úrslitaleik um sæti í A-deild.

Kristinn Pálsson og Hjálmar Stefánsson skoruðu 15 stig hvor fyrir íslenska liðið í dag. Jón Axel Guðmundsson var með 13 stig og Pétur Rúnar Birgisson og Kári Jónsson skoruðu báðir 12 stig.

Strákarnir unnu fyrsta leikhlutann 29:5 og voru yfir að loknum fyrri hálfleik, 45:24. Leikurinn varð aldrei spennandi og fór svo að lokum að strákarnir unnu 40 stiga sigur.

Landsliðið hef­ur náð stór­góðum ár­angri hingað til. Liðið hef­ur núna sigrað bæði Pól­verja og Rúss­land sem hafa bæði yf­ir­leitt verið í A-deild­inni, ásamt því að vinna Eista og leikur eins og áður segir í undanúrslitum á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert