Bandaríkjamenn burstuðu Kínverja

Kevin Durant
Kevin Durant AFP

Bandaríska karlalandsliðið í körfuknattleik vann stórsigur gegn Kína þegar liðin mættust í vináttulandsleik í Kaliforníu í gær. Lokatölur urðu 106:57, heimamönnum í vil. 

Leikurinn var liður í undirbúningi beggja liða fyrir Ólympíuleikana í Ríó en þar mætast þau einmitt í A-riðli körfuboltakeppninnar.

Eins og lokatölurnar bera með sér var um einstefnu að ræða nánast allan leikinn. Bandaríkjamenn leiddu með 26 stiga mun að loknum fyrri hálfleik, 55:29 og lönduðu að lokum afar auðveldum 49 stiga sigri.

Kevin Durant skoraði 19 stig fyrir Bandaríkin og verðandi liðsfélagi hans hjá Golden State Warriors, Klay Thompson, skoraði 17 stig.

Mike Krzyzewski, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, gat leyft sér að skipta mönnum inn á völlinn eins og um „stjörnuleik“ væri að ræða og allir nema Draymond Green komust á blað í leiknum.

Lebron James, Steph Curry og Kawhi Leonard eru ekki í landsliðinu að þessu sinni en þessir sterku leikmenn ákváðu að hvíla lúin bein í stað þess að keppa á Ólympíuleikunum. Engu að síður er ljóst að bandaríska liðið er ansi líklegt til afreka í Ríó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert