„Þetta er bara körfubolti“

Kári með boltann í úrslitaleiknum.
Kári með boltann í úrslitaleiknum. Ljósmynd/Fiba

„Fyrirfram vissum við að við vorum í mjög sterkum riðli og að komast upp úr honum hefði verið ákveðinn sigur út af fyrir sig,“ sagði körfuboltamaðurinn Kári Jónsson í samtali við mbl.is en strákarnir í U20 ára landsliðinu komu til landsins í nótt eftir frægðarför til Grikklands.

Liðið hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar og vann sér sæti í A-deildinni að ári. Kári og Jón Axel Guðmundsson voru valdir í lið mótsins en Kári var með 17,1 stig, 4,7 fráköst, 3,6 stoðsendingar og 2,9 stolna bolta að meðaltali í leik.

„Við töpuðum fyrsta leik gegn Hvít-Rússum og þá varð þetta snúið en við urðum að vinna rest og náðum heldur betur að gíra okkur upp í það,“ sagði Kári en Ísland sigraði til að mynda stórar þjóðir eins og Pólland og Rússland.

Ísland hafnaði í fyrsta sæti riðilsins og valtaði yfir Georgíu í 8-liða úrslitum. Liðið mætti heimamönnum í undanúrslitum en það er leikur sem líður Kára seint úr minni.

Þögguðum niður í þeim

„Leikurinn á móti Grikkjum er einhver mesta sturlun sem maður hefur upplifað. Það var troðfullt hús, líklega 2.000 manns í 1.500 manna höll. og brjáluð læti allan tímann. Við náðum að þagga niður í þeim og spiluðum okkar draumaleik,“ sagði Kári en Grikkir voru taldir sigurstranglegastir og höfðu ekki tapað leik áður en liðið mætti íslensku strákunum.

Kári segir að strákarnir í liðinu mikli andstæðinga sína ekki fyrir sér áður en leikir hefjast. „Nei það þýðir ekkert fyrir okkur. Þetta er bara körfubolti, fimm á fimm. Þótt þeir séu stærri getum við ekkert gert til að breyta því. Við erum með okkar leikplan, góða taktík og ef við fylgjum okkar plani vel eigum við séns gegn öllum liðum,“ sagði Kári.

„Ef við ætlum að hugsa bara um hvað hinir eru stórir og reyna að spila eins og þeir hefðum við líklega ekki unnið þessa leiki. Við spilum okkur bolta, erum minni og fljótari og getum skorað úr fleiri stöðum og nýtum okkur það mjög vel. Í staðinn fyrir að spila upp á hvað hinir eru góðir spiluðum við upp á okkar styrkleika. Það virkaði nokkuð vel.“

Hlakkar til að halda vestur um haf

Kári heldur út í byrjun september til háskólanáms í Drexel-háskólann í Philadephiu í Bandaríkjunum. „Ég er mjög spenntur og hlakka mikið til,“ sagði Haukamaðurinn en hann varð stúdent á þremur árum til þess að komast fyrr til Bandaríkjanna í nám. 

„Það er frábært tækifæri til að mennta sig og spila körfubolta á háu getustigi.“

Kári Jónsson og Jón Axel Guðmundsson voru valdir í úrvalslið …
Kári Jónsson og Jón Axel Guðmundsson voru valdir í úrvalslið mótsins. Ljósmynd/Fiba
Kári í varnarstöðu gegn Rússum.
Kári í varnarstöðu gegn Rússum. Ljósmynd/Fiba
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert