Ísland komið í átta liða úrslit

Dagbjört Dögg Karlsdóttir í leik með íslenska liðinu gegn Bosníu-Hersegóvínu.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir í leik með íslenska liðinu gegn Bosníu-Hersegóvínu. Ljósmynd/kki.is

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri tryggði sér sæti í átta liða úrslitum í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu þessa dagana eftir glæsilegan 81:73 sigur gegn Finnum í hreinum úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitunum í dag. 

Sylvía Rún Hálfdanardóttir, leikmaður deildarmeistara Hauka, fór á kostum í leiknum, en auk þess að vera stigahæst í íslenska liðinu með 28 stig tók hún 20 fráköst. 

Emelía Ósk Gunnarsdóttir, leikmaður Keflavíkur, var næststigahæst hjá íslenska liðinu með 15 stig. Elín Sól­ey Hrafn­kels­dótt­ir sem nýverið gekk í raðir Vals kom þar á eftir, en hún skoraði 13 stig og tók þar að auki 15 fráköst.

Ísland leikur í átta liða úrslitum á föstudaginn kemur, en það kemur í ljós í kvöld hverjir mótherjar íslenska liðsins verða þar. Þær þjóðir sem koma til greina sem andstæðingar Íslands í átta liða úrslitunum eru Hvíta-Rússland, Pólland eða Úkraína.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert