Martin gerist atvinnumaður

Martin Hermannsson
Martin Hermannsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Franski fjölmiðillinn BE Basket fullyrðir að íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson muni spila í frönsku b-deildinni á næsta keppnistímabili en hann hefur síðustu tvö árin leikið með LIU Brooklyn í háskólaboltanum bandaríska. 

Liðið sem um ræðir heitir Charleville-Mezieres og samkvæmt fréttinni er Martin ætlað að leysa Akeem Williams af hólmi hjá liðinu. 

Martin sagðist í samtali við Morgunblaðið í vor vera að íhuga að gerast atvinnumaður í Evrópu og hann virðist nú hafa gert upp hug sinn. Þá sagði Martin koma til greina að halda háskólanámi sínu áfram í fjarnámi ef hann fengi vilyrði fyrir því hjá Bandaríkjamönnunum. 

Martin átti gríðarlega gott tímabil í Bandaríkjunum síðasta vetur og var valinn í úrvalsliðið í riðli LIU. Tölfræði hans þar hefur vafalaust vakið áhuga atvinnumannaliða auk þess sem Martin fékk töluvert að spreyta sig í lokakeppni EM í Berlín þrátt fyrir ungan aldur. 

Annar landsliðsmaður, Haukur Helgi Pálsson, mun leika í sömu deild og Martin næsta vetur en hann samdi á dögunum við Rou­en. Þeir félagar koma því væntanlega til með að mætast í Frakklandi. 

Frakkland hefur ekki oft verið áfangastaður íslenskra körfuboltamanna en BE Basket minnist þess að Logi Gunnarsson hafi leikið fyrir tvö félög í Frakklandi á sínum tíma. 

Nýlega léku bæði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Fanney Lind Guðmundsdóttir í Frakklandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert