Strákarnir höfðu betur gegn Dönum

Eyjólfur Halldórsson kemur boltanum í körfuna í dag.
Eyjólfur Halldórsson kemur boltanum í körfuna í dag. Ljósmynd/Fiba.com

Íslenska karla­landsliðið í körfuknatt­leik skipað leik­mönn­um 18 ára og yngri vann í dag fimm stiga sigur gegn Dönum, 73:68, í B-deild Evr­ópu­móts­ins í Skopje í Makedón­íu. 

Ísland er þar með búið að vinna tvo leiki og tapa einum en áður hafði liðið unnið Lúxemborg en tapað fyrir Tékklandi.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi en Ísland var með fimm stiga forskot að loknum fyrri hálfleik, 41:36. Danir léku vel í þriðja leikhluta og höfðu eins stigs forskot fyrir lokaleikhlutann. Strákarnir léku hins vegar góða vörn í lokaleikhlutanum og sigruðu með fimm stiga mun eins og áður sagði.

Eyjólfur Halldórsson var stigahæstur íslensku strákanna með 17 stig. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kom honum næstur en hann var með 15 stig og Adam Eiður Ásgeirsson var með 12 stig.

Næst mætir Ísland Eistlandi á þriðjudag og lokaleikurinn í riðlinum er gegn Hollandi á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert