LeBron James gefur fimm milljarða

LeBron James
LeBron James AFP

Körfuknattleiksmaðurinn LeBron James hefur á glæstum ferli þénað himinháar upphæðir og nú hefur kappinn ákveðið að gefa samfélaginu „örlítið“ til baka.

James hefur sett á laggirnir sjóð, sem mun borga skólagjöld 1.100 nemenda við Akron University. Þar er skólagjald fyrir hvern nemanda um 9.500 dollarar á ári en sjóðurinn mun borga öll skólaárin eða samtals 38.000 dollara fyrir hvern nemanda.

Þessi magnaði leikmaður Cleveland Cavaliers mun því setja um 41 milljón dollara í sjóðinn eða sem nemur tæpum fimm milljörðum íslenskra króna.

James fæddist í Akron í Ohio og sneri aftur á heimaslóðir fyrir tímabilið 2014-2015 til að leika með Cleveland Cavaliers. Sú heimkoma skilaði liðinu NBA-meistaratitlinum í vor, þegar Cleveland skellti þáverandi meisturum Golden State Warriors.

Verkefnið í Akron University mun bera nafnið „I promise“ eða „Ég lofa“. Ekki hefur enn verið ákveðið endanlega hvaða lágmarki styrkþegar þurfa að ná en þó er ljóst að viðkomandi þarf að hafa klárað miðskóla (high-school) í Akron til að eiga möguleika á styrk til náms í háskólanum þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert