Stórt tap gegn Slóveníu

Hörður Axel Vilhjálmsson og Hlynur Bæringsson léku báðir í dag.
Hörður Axel Vilhjálmsson og Hlynur Bæringsson léku báðir í dag. AFP

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði í dag 98:68 fyrir Slóveníu í fjögurra liða æfingamóti sem haldið er í Austurríki. Ísland tapaði öllum leikjum sínum á mótinu.

Íslenska liðið byrjaði mjög vel og hafði forystu að loknum fyrsta leikhluta, 24:23. Stórir og sterkir Slóvenar tóku síðan öll völd og unnu öruggan sigur. Staðan í hálfleik var 55:37, Slóveníu í vil.

Íslenska landsliðið er að hefja undirbúning sinn fyrir undankeppni Evrópumótsins 2017. Ísland mætti Póllandi, Austurríki og Slóveníu á þessu móti og tapaði öllum leikjunum. Leikurinn gegn Austurríki fór 79:70 og lokatölur gegn Póllandi voru 82:71. Allar þessar þjóðir eru komnar vel á veg í sínum undirbúningi og Slóvenía er eitt af 10 bestu liðum Evrópu.

Slóvenar gátu t.a.m. leyft sinni stærstu stjörnu, NBA-leikmanninum Goran Dragic, að sitja í stúkunni í dag og horfa á leikinn. Þess má geta að Jón Arnór Stefánsson lék aðeins fyrri hálfleikinn í dag.

Ísland mætir Sviss 31. ágúst í Laugardalshöll í undankeppni Eurobasket en Kýpur og Belgía eru einnig í þeim riðli.

Stigaskor Íslands: Martin Hermannsson 16, Hörður Axel Vilhjálmsson 10, Jón Arnór Stefánsson 9, Haukur Helgi Pálsson 6, Logi Gunnarsson 6, Hlynur Bæringsson 5, Tryggvi Snær Hlinason 4, Elvar Már Friðriksson 3, Brynjar Þór Björnsson 3, Axel Kárason 2, Kristófer Acox 2, Ægir Már Steinarsson 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert