Birna varð stigahæst á EM

Birna Benónýsdóttir í leik gegn Grikklandi á EM.
Birna Benónýsdóttir í leik gegn Grikklandi á EM. Ljósmynd/FIBA

Keflvíkingurinn Birna Benónýsdóttir varð stigahæsti leikmaður b-deildar Evrópumóts U16 landsliða í körfuknattleik sem haldið var í Finnlandi. 

Birna átti frábært mót, skoraði 17,8 stig og tók 7 fráköst að meðaltali í leik.

Merkilegt nokk, þá dugði þessi tölfræði ekki til að Birna yrði valin í úrvalslið mótsins. Pólverjar unnu b-deildina og áttu einn fulltrúa í úrvalsliðinu. Rúmenía varð í öðru sæti og átti tvo leikmenn í liðinu og sömuleiðis Holland, sem lenti í þriðja sæti.

Íslenska liðinu gekk ekki alveg nógu vel á mótinu og hafnaði í 18. sæti af 23 liðum. Ísland lék fimm leiki í riðlakeppni mótsins, tapaði fjórum en vann stórsigur gegn Albaníu.

Liðið lék svo þrjá leiki um sæti í mótinu og vann tvo þeirra. Ísland vann bæði Austurríki og Kýpur en tapaði gegn Bosníu.

Annar Keflvíkingur, Elsa Albertsdóttir, varð stoðsendingahæsti leikmaður mótsins en Erla gaf 4,3 stoðsendingar að meðaltali í mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert