Óþarfi að örvænta strax

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari í körfuknattleik karla, segir þátttöku á móti …
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari í körfuknattleik karla, segir þátttöku á móti í Austurríki um liðna helgi hafa verið lærdómsríka. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Stórmerkum árangri var náð í íslenskri körfuboltasögu í fyrra þegar karlalandsliðið tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótinu. Landsliðið undirbýr sig nú af kappi fyrir undankeppni Evrópukeppninnar 2017 og var liður í þessum undirbúningi þátttaka liðsins í sterku æfingamóti sem haldið var í Austurríki. Ísland tapaði fyir Póllandi og Austurríki í hörkuleikjum en lenti svo á vegg í gær, þegar okkar menn steinlágu fyrir Slóveníu 98:68.

Liðin sem Ísland mætti eru komin mun lengra í undirbúningi fyrir EM og þrátt fyrir þrjú töp lítur landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen björtum augum á framhaldið.

„Sannarlega getum við tekið jákvæða hluti með okkur héðan. Þessi lið eru mjög sterkir andstæðingar. Slóvenar eru frábær körfuboltaþjóð, Pólland komst í 16 liða úrslit Evrópumótsins og Austurríkismenn tefla fram stóru og sterku liði. Við áttum mjög góða kafla í vörninni á mótinu og náðum að skapa okkur góð skot með ágætum sóknarleik. Það sem er ekki síður mikilvægt er að við komum auga á veikleika okkar og nú vitum við betur hvernig á að laga þá,“ sagði Pedersen í samtali við Morgunblaðið í gær.

Úrslitin voru aldrei aðalatriðið

Jón Arnór Stefánsson hefur verið í sérflokki íslenskra körfuboltamanna um árabil og hann lék aðeins fyrri hálfleikinn gegn Slóveníu. Jón Arnór og fyrirliðinn Hlynur Bæringsson voru báðir hvíldir í leiknum gegn Austurríki og munar um minna. Pedersen segir ástæðuna einfalda.

„Markmiðið var fyrst og fremst að gefa öllum tíma á vellinum og það tókst. Við vorum ekki endilega að eltast við úrslitin sem slík, heldur miklu frekar að læra af þessum leikjum og taka með okkur þegar alvaran hefst. Jón Arnór og Hlynur voru hvíldir í öðrum leiknum gegn Austurríki, bæði til að gefa öðrum tækifæri og til að fá þá örlítið ferskari gegn Slóvenum. Jón Arnór lék mjög vel í fyrri hálfleik gegn Slóveníu en við hvíldum hann allan seinni hálfleikinn.“

Nánar er rætt við Pedersen í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert