Lakers í viðræðum við Kínverja

Yi Jianlian í leik gegn Serbum á Ólympíuleikunum í Ríó.
Yi Jianlian í leik gegn Serbum á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP

Forráðamenn Los Angeles Lakers virðast nú róa á kínversk mið í þeirri von um að rétta við gengi liðsins sem verið hefur í lægð síðustu árin.

Samkvæmt frétt hjá ESPN hefur Lakers mikinn áhuga á því að næla í kínverska framherjann Yi Jianlian. Hann er ekki óþekktur í Bandaríkjunum því hann var í herbúðum Dallas Mavericks tímabilið 2011-2012.

Jianlian er fæddur 1987 og þótti geysilega efnilegur í kringum tuttugu ára aldurinn. Var hann valinn sjötti í NBA-nýliðavalinu af Milwaukee Bucks. Var hann valinn á undan Marc Gasol sem dæmi.

Jianlian var í herbúðum Milwaukee, New Jersey Nets, Washington Wizards og Dallas á fimm ára tímabili og skilaði að meðaltali 8 stigum og 5 fráköstum.

Frá þeim tíma hefur framherjinn leikið í heimalandinu en Lakers er nú í viðræðum við hann um að snúa aftur í NBA á frjálsri sölu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert