Jón Arnór samdi til tveggja ára

Jón Arnór Stefánsson samdi við KR.
Jón Arnór Stefánsson samdi við KR. mbl.is/Eva Björk

Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, skrifaði nú síðdegis undir tveggja ára samning við Íslandsmeistara KR. Jón Arnór tilkynnti opinberlega í gær að hann væri á heimleið eftir mörg ár í atvinnumennsku og hefur nú samið við uppeldisfélagið.

Jón Arnór er 33 ára gamall og hélt fyrst út í atvinnumennsku árið 2002. Hann hefur leikið erlendis sleitulaust síðan, ef frá er talinn veturinn 2008-2009 þar sem hann spilaði hér heima með KR.

Jón Arnór hefur á löngum atvinnumannaferli spilað með liðum í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Rússlandi, Ítalíu og Spáni, og ber hæst Evrópumeistaratitil hans með Dynamo St. Pétursborg árið 2005. Hann lék með spænska liðinu Valencia á síðustu leiktíð. Spænsk félög föluðust eftir kröftum Jóns fyrir komandi vetur, en hann ákvað hins vegar að snúa heim.

Jón Arnór var orðaður við bæði Stjörnuna og Grindavík eftir að hafa ákveðið að snúa heim, en hefur sem fyrr segir samið við KR sem freistar þess á komandi leiktíð að verða Íslandsmeistari fjórða árið í röð.

Rætt verður við Jón Arnór hér á mbl.is síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert