Ekki alveg tilbúinn í atvinnumennsku

Tryggvi Snær Hlinason(t.h.) er framtíðarmaður í landsliðinu.
Tryggvi Snær Hlinason(t.h.) er framtíðarmaður í landsliðinu. ljósmynd/FIBA

Íslenska karlalandsliðið í körfukanttleik leikur mikilvægan leik á morgun gegn Sviss í undankeppni Evrópumótsins 2017. Miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason er í leikmannahópi Íslands og kom það val væntanlega einhverjum á óvart.

Tryggvi er aðeins 18 ára gamall og lék lykilhlutverk með Þór á Akureyri í fyrra þegar Þórsarar unnu sér sæti í úrvalsdeild. Miðherjinn efnilegi er 215 cm hár og tekur sæti Ragnars Nathanelssonar í landsliðshópnum. En kom það Tryggva á óvart að vera valinn í hópinn?

„Bæði já og nei. Tæknilega séð og upp á framtíðina sá ég þetta alveg geta gerst en hins vegar hefði ég ekkert orðið eitthvað ósáttur að komast ekki í hópinn. Þetta er bara mjög gaman og gott að vera orðinn hluti af hópnum. Ég hef alveg trú á því að ég fái einhver tækifæri til að sýna mig og þá fer þetta bara eftir því hvernig ég stend mig, hvort hlutverkið verði stórt eða lítið í ár.“

Tryggvi er erfiður inni í teignum.
Tryggvi er erfiður inni í teignum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tryggvi kemur inn í æfingahóp sem inniheldur leikmenn sem yngri leikmenn Íslands hafa horft upp til um árabil. Leikmenn á borð við Jón Arnór Stefánsson og Hlyn Bæringsson koma upp í hugann og kannski var erfitt fyrir ungan leikmann að vera skyndilega á æfingum með fyrrverandi átrúnaðargoðum sínum.

„Ég var svolítið með stjörnur í augunum fyrst en um leið og 2-3 æfingar með þeim eru búnar, þá verður þetta bara eðlilegt. Þegar maður er að spila á æfingu við þessa gaura, þá er maður ekkert að spá mikið í það hversu mikið frægari og betri þeir eiga að vera.“

Miðherjinn segir komandi verkefni í undankeppninni spennandi og ekkert megi út af bregða.

„Hver einasti leikur skiptir miklu máli, enda eru þetta ekkert margir leikir sem eru í boði. Eitt tap getur reynst dýrkeypt en ég hef fulla trú á því að við getum landað sigri gegn Sviss annað kvöld.“

Tryggvi var fyrir skömmu orðaður við gríðarsterk lið Valencia á Spáni en því liggur beinast við að spyrja hvort kappinn hugsi sér fljótlega til hreyfings frá Íslandi.

„Þetta er allt í umhugsunarferli núna. Ég mun a.m.k. taka fyrri hluta tímabilsins með Þór Akureyri en mér finnst ég kannski ekki alveg tilbúinn að taka svona rosa stórt skref eins og það er að fara í atvinnumennsku.“

Stefnan er þó tekin til útlanda, hvenær sem það gerist.

„Annaðhvort fer ég til Bandaríkjanna í háskólaboltann þar eða beint í atvinnumennskuna í Evrópu. Ég þarf bara að velja annan kostinn,“ sagði hinn efnilegi Tryggi Snær að lokum.

Tryggvi Snær Hlinason
Tryggvi Snær Hlinason mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert