Mikilvægt að allir skili framlagi

Craig Pedersen.
Craig Pedersen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen var sáttur eftir að íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik sigraði Kýpur 84:62, þegar liðin mættust í undankeppni Evrópumótsins 2017 í Laugardalshöll.

Pedersen og leikmennirnir töluðu um það fyrir leik að Kýpverjar hefðu ekki líkamlegt þrek til að hlaupa með Íslandi allan leikinn og það gekk eftir.

„Já, það gerðist nákvæmlega þannig og svo fórum við að skapa okkur frábær skottækifæri undir lok fyrri hálfleiks. Við nýttum svo þessi skot í upphafi seinni hálfleiks og það var mjög mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Pedersen eftir leik.

„Þeir voru erfiðir við að eiga og við áttum í basli með að slíta okkur frá þeim. Þeir léku fínan körfubolta en með því að halda hraðanum uppi í seinni hálfleik, áttu þeir engin svör.“

Margir leikmenn skiluðu góðu framlagi i leiknum og það gleður þjálfarann kanadíska.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki síst þegar við erum með örar skiptingar eins og í dag. Það er mjög gott að menn sem koma inn á völlinn eru að skila framlagi en ekki bara að hvíla lykilmenn.“

Kýpur skoraði átta síðustu sig leiksins þegar lykilmenn Íslands fengu örlitla hvíld en Pedersen var ekki að stressa sig of mikið á því.

„Já kannski var það ekki nógu gott. Það er samt mikilvægara að við fáum dýrmæta hvíld fyrir okkar sterkustu pósta. Þeir gagnast okkur ekki nógu vel á laugardaginn [gegn Belgíu] ef þeir eru allir örþreyttir,“ sagði Pedersen að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert