Stórt skref tekið í Laugardalshöll

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vann í kvöld mikilvægan sigur á Kýpur í undankeppni Evrópumótsins 2017. Lokatölur urðu 84:62 og Ísland er í góðri stöðu að komast í lokakeppnina á næsta ári.

Staðan í riðlinum var galopin fyrir leikinn og gestirnir frá Kýpur hefðu með sigri, skotist upp fyrir Ísland fyrir lokaleikina. Kýpverjar spiluðu vel í fyrsta leikhluta og voru að valda okkar mönnum miklum vandræðum.

Þriggja stiga skyttur Kýpur voru heitar og inni í teignum var hinn bandarísk-ættaði Anthony King erfiður viðureignar, bæði í vörn og sókn. Gestirnir skoruðu 12 stig með þriggja stiga skotum og leiddu að loknum fysta leikhluta, 20:17.

Skothríðin hélt áfram í upphafi annars leikhluta og þegar staðan var 23:26 fyrir Kýpur, höfðu 18 stig komið utan þriggja stiga línunnar. Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, byrjaði að stoppa í götin og varnarleikur Ísland varð grimmari. Þetta leiddi til þess að gestirnir tóku erfiðari skot og Ísland náðu smátt og smátt undirtökunum.

Glæsileg troðsla Kristófers Acox kveikti mikla stemming í höllinni og með samstilltu átaki tókst íslenska liðinu að fara inn í búningsherbergi að loknum fyrri hálfleik með sex stiga forystu, 42:36. Það var í raun vel sloppið hjá íslenska liðinu sem gerði sér verkefnið ansi erfitt á köflum. Það má þó ekki taka það frá Kýpverjum að þeir léku vel og fullir sjálfstrausts.

Kýpverjar gjörsamlega sprungu á limminu

Það sannaðist í seinni hálfleiknum að leikmenn Kýpur eru töluvert á eftir íslensku strákunum í líkamlegu atgervi. Íslenska liðið keyrði upp hraðann gegn lafmóðum leikmönnum gestanna og körfur í öllum regnbogans litum litu dagsins ljós.

Munurinn varð fljótlega 19 stig í stöðunni 61:42 og ljóst að Ísland tæki tvö stig úr þessum leik. Krafturinn var allur hjá íslenska liðinu og ekki síst hjá Kristófer Acox sem reif niður fráköst og skoraði góðar körfur. Staðan að loknum þremur leikhlutum var 69:46 en íslensku strákarnir unnu leikhlutann 27:10.

Munurinn fór mest í 30 stig í lokaleikhlutanum og þar fór fyrirliðinn Hlynur Bæringsson svo sannarlega fyrir sínum mönnum. Hlynur barðist eins og ljón í vörn og sókn og Kýpverjar hristu bara hausinn yfir tilþrifum kappans.

Undir lokin fengu leikmenn sem ekki hafa leikið mikið að spreyta sig og gestirnir náðu aðeins að rétta sinn hlut. Lokatölur 84:62 og þessi sigur gæti farið langt að fleyta liðinu í lokakeppni  Evrópumótsins. Það þarf þó að bíða eftir lokaleikjunum í öllum riðlunum til að fá þetta endanlega á hreint.

Ísland mætir Belgíu á laugardaginn og það er a.m.k. ljóst að sigur í þeim leik gulltryggir sæti Íslands í Evrópukeppninni.

Stig Íslands: Hlynur Bæringsson 18, Haukur Helgi Pálsson 15, Logi Gunnarsson 12, Kristófer Acox 10, Martin Hermannsson 8, Jón Arnór Stefánsson 7, Hörður Axel Vilhjálmsson 6, Brynjar Þór Björnsson 6, Elvar Friðriksson 2.

Hér að neðan má sjá textalýsingu frá leiknum.

Leik lokið með 84:62 sigri Íslands. Kannski óþarfa kæruleysi að leyfa Kýpverjum að skora síðustu átta stig leiksins. Sigurinn er þó dýrmætur og nú tekur við reikningur hversu langt þessi sigur getur tekið liðið. Takk í kvöld.

38. Staðan er 84:60. Kýpverjar minnka aðeins muninn. Hinn ungi miðherji Tryggvi Snær Hlinason er kominn inn á völlinn.

36. Staðan er 84:54. 30 stiga munur. Hlynur hefur farið á kostum í vörn og sókn. Þvílíkur leikmaður! Hlynur er stigahæstur með 18 stig og hefur leikið óaðfinnanlega.

34. Staðan er 76:47. Risavaxinn þristur hjá Hauki í horninu og nú er bara spurning hversu stór sigurinn verður.

32. Staðan er 71:47. Logi byrjaði leikhlutann með fallegu sniðskoti en King minnkar muninn af vítalínunni.

Þriðja leikhluta lokið. Staðan er 69:46. Þessi leikhluti var ansi ójafn en hann endaði 27:10 Íslandi í vil. Eftirleikurinn ætti að vera auðveldur en strákarnir þurfa að halda haus og vinna með sem mestum mun. Þetta skiptir allt máli.

28. Staðan er 65:43. Kristófer með frábæran kafla. Tekur tvö sóknarfráköst og skilar að lokum boltanum í körfuna. Frábær viðbót að fá Kristófer inn í liðið.

26. Staðan er 59:42. Logi Gunnarsson með rosalegan þrist í horninu og höllinn rifnar af gleði! Gestirnir virka einfaldlega sprungnir líkamlega. Ekki séns að þeir hangi í strákunum í hröðum leik.

24. Staðan er 52:42. Alltaf þegar maður heldur að strákarnir séu að stinga af, þá svarar Kýpur með þristi. Ólseigir skrattakollar.

22. Staðan er 47:36. Fyrstu fimm stig seinni hálfleiks eru íslensk. Fyrst skoraði Haukur tvö stig af línunni og svo setur Hlynur niður þriggja stiga skot. Leikhlé Kýpur.

Seinni hálfleikur er hafinn.

Fyrri hálfleik lokið. Staðan er 42:36. Bæði lið fengu góð færi til að skora í lokasóknum sínum en sambland af klaufaskap og óheppni verður þess valdandi að Ísland hefur sex stiga forystu að loknum fyrri hálfleik.

19. Staðan er 42:36. Strákunum gengur betur að finna opna manninn núna en skotin eru ekki að detta. Varnarleikurinn er að sama skapi að skána og gestirnir þurfa að hafa örlítið meira fyrir skotum sínum.

17. Staðan er 39:34. Haukur Helgi setur niður tvö víti og þetta er stærsta forskot Íslands í leiknum.

17. Staðan er 35:31. Vá! Kristófer rífur niður sóknarfrákastið og treður viðstöðulaust. Frábær tilþrif hjá leikmanni Furman University.

16. Staðan er 33:29. Flott stökkskot Martins og svo glæsilegur þristur hjá Brynjari. Þetta er betra!

15. Staðan er 26:27. Mistökin eru ennþá of mörg. Martin finnur sig engan veginn og hinir eldfljótu Ægir og Elvar eru ekki að ná að nýta hraðann gegn stærri mönnum Kýpverja. Mér sýnist þó nokkrir leikmenn Kýpur vera byrjaðir að blása hressilega úr nös.

13. Staðan er 23:26. Tveir þristar í röð hjá Kýpur. Það verður að fara að loka á þetta. Gestirnir hafa skorað 18 stig af 26 með slíkum skotum.

12. Staðan er 23:20. Baráttujaxlinn Hlynur Bæringsson skorar eftir sóknarfrákast og jafnar leikinn. Ísland vinnur boltann og Hörður skorar þriggja stiga körfu. Leikhlé hjá Kýpur.

Logir Gunnarsson er stigahæstur með fimm stig. Kýpur hefur skorað fjóra þrista í fyrsta leikhluta.

10. Staðan er 17:20. Gestirnir leiða að loknum fyrsta leikhluta. Vörnin er ekki að virka hjá strákunum og Kýpverjar fá alltof mörg auðveld skot. Þetta á eftir að batna, það er ég handviss um.

9. Staðan er 17:17. Fyrstu stig Jón Arnórs jafna leikinn. Þetta er hörkuleikur.

7. Staðan er 13:17. Kýpverjar stóla mikið á þriggja stiga skot og að koma boltanum beint inn í teig á Anthony King. Eins og nafnið gefur til kynna, á hann ættir að rekja til Bandaríkjanna. Sjö stig í röð hjá Kýpur!

5. Staðan er 8:7. Gestirnir spila ágæta vörn og svara svo með tveimur körfum. Martin kemur Íslandi aftur yfir af vítalínunni.

4. - Staðan er 7:3. Góð karfa Hlyns og svo glæsilegur þristur Harðar. Þetta byrjar ágætlega.

2. - Staðan er 2:3. Haukur Helgi skorar eftir frábæra sendingu Hlyns en gestirnir svara með þrist.

Leikurinn er hafinn.

Fyrir leik: Þjóðsöngvar hafa verið leiknir og það eru um þrjár mínútur í leik. Ég sakna „Tólfu-stemmingu“ í kringum þjóðsönginn í körfunni. Það verður þó að geta þess að þjóðsöngurinn var hreinlega öskraður á EM í Berlin í fyrra. Körfuboltafólk getur sem sagt alveg látið í sér heyra.

Stoðsendingahæstu menn Íslands í riðlinum (meðaltal) :
Hlynur Bæringsson 5,0
Hörður Axel Vilhjálmsson 4,8
Jón Arnór Stefánsson 3,5

Frákastahæstu menn Íslands í riðlinum (meðaltal) :
Hlynur Bæringsson 9,0
Kristófer Acox 4,8
Martin Hermannsson 4,2

Stigahæstu menn Íslands í riðlinum (meðaltal) :
Haukur Helgi Pálsson 17,5
Martin Hermannsson 14,8
Hlynur Bæringsson 13,0

Lið Íslands: 6 - Kristófer Acox, 7 - Sigurður Gunnar Þorsteinsson, 8 - Hlynur Bæringsson, 9 - Jón Arnór Stefánsson, 10 - Ægir Þór Steinarsson, 12 - Elvar Már Friðriksson, 13 - Hörður Axel Vilhjálmsson, 14 - Logi Gunnarsson, 15 - Martin Hermannsson, 24 - Haukur Helgi Pálsson, 34 - Tryggvi Snær Hlinason, 88 - Brynjar Þór Björnsson.

Fyrir leik: Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson lék landsleik nr. 100 í tapinu gegn Belgíu. Leikurinn í kvöld er því leikur 102 hjá þessum magnaða leikmanni. Ef Hlynur Bæringsson væri um 10 cm hærri hefði hann líklega leikið sinn atvinnumannaferil í mun sterkari deild en í Svíþjóð. Það er mitt mat og er auðvitað algjörlega hlutlaust. Hlynur verður Stjörnumaður í vetur og lífgar mikið upp á Dominos-deildina.

Fyrir leik: Jæja, þar hljóp ég á mig í reikningskúnstum. Liðin fá auðvitað eitt stig fyrir tap líka og þ.a.l. eru Svisslendingar komnir með 6 stig í riðlinum. Það setur allar pælingar í uppnám og ég hendi inn handklæðinu í þeim málum.

Fyrir leik: Þar með er það ljóst að með sigri í kvöld verður Ísland aldrei neðar en Sviss og Kýpur. Sviss getur mest endað með 7 stig en Kýpur gæti þá enn þá jafnað Ísland að stigum með sigri í lokaleiknum gegn Sviss. Þó að strákarnir myndu tapa gegn Belgíu í lokaleiknum, yrði Ísland alltaf ofar en Kýpur á innbyrðis viðureignum. Þetta er leiðinlega flókið og nú lofa ég að hætta þessum pælingum. Vinnum bara Kýpur og missum okkur svo í reikningskúnstum. Koma svo strákar!

Fyrir leik: Staðan í riðlinum er eftirfarandi (þar sem gert er ráð fyrir að Belgía klári leikinn gegn Sviss með sigri en Belgar eru 32 stigum yfir þegar einn leikhluti er eftir). Belgía 10 stig - 5 leikir, Ísland 6 stig - 4 leikir, Kýpur 5 stig - 4 leikir, Sviss 5 stig - 5 leikir.

Fyrir leik: Jón Arnór Stefánsson og Ægir Már Steinarsson eru báðir í hópnum og er það gleðiefni. Jón Arnór lék ekki gegn Kýpur ytra vegna meiðsla og hefur verið á annarri löppinni síðan. Ægir Már veiktist rétt fyrir leikinn gegn Sviss ytra og var ekki með. Þar var skarð fyrir skildi en Ægir hefur leikið virkilega vel þær mínútur sem hann hefur fengið í riðlakeppninni hingað til.

Fyrir leik: Belgía er að pakka Sviss saman í hinum leik riðilsins og ljóst að Belgar munu vinna þennan riðil. Ég vil ekki fara út í neina reikninga strax og hvort/hvernig Ísland þyrfti að vinna Belgíu í lokaleiknum til að landa sæti á Evrópumótinu. Við skulum bara spila þennan leik og sjá svo til hver staðan er að honum loknum.

Fyrir leik: Góða kvöldið gott fólk. Það eru rétt um 45 mínútur í að þessi mikilvægi landsleikur hefjist hér í Laugardalshöll. Það er ekkert annað en sigur og tvö stig sem er í boði hjá Íslandi, ætli liðið sér að komast í Evrópumótið, aðra keppnina í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert