Þeir mæta vonandi værukærir til leiks

Hlynur Bæringsson rífur niður frákast.
Hlynur Bæringsson rífur niður frákast. mbl.is/Árni Sæberg

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, lék vel í 84:62 sigri gegn Kýpur í undankeppni Evrópumótsins sem haldið verður á næsta ári. Hlynur skoraði 18 stig og tók 9 fráköst og reyndist gestunum erfiður í teignum.

„Þeir voru margir hverjir ekki í standi að hlaupa allan leikinn. Þetta eru seigir körfuboltamenn en sumir ekkert sérstakir íþróttamenn. Við keyrðum bara á þá og það gekk mjög vel.“

Hlynur er fljótur að finna þann hluta sem hann taldi jákvæðastan í leiknum gegn Kýpur.

„Hvernig við náðum að keyra yfir þá í þriðja leikhluta var mjög gott. Við þurfum svolítið að læra að spila þegar við eigum að vera betra liðið. Mér finnst við oft vera tilbúnari þegar við erum álitnir „litla liðið“. Við þurfum að læra að vera betra liðið og kunna að vera með forskot.“

Hlynur Bæringsson í baráttunni að vanda.
Hlynur Bæringsson í baráttunni að vanda. mbl.is/Árni Sæberg

Margir leikmenn áttu góðar innkomur í leiknum og léttu álaginu á lykilmenn liðsins.

„Já, þetta er mjög mikilvægt. Í síðasta leik vorum það við sem höfðum leikið flestar mínútur, orðnir ansi lúnir eftir þrjá erfiða útileiki í röð. Nú fengum við frábærar mínútur frá Kristófer, Sigga, Brynjari og fleiri leikmönnum.“

Gríðarsterkt lið Belgíu bíður strákanna á laugardaginn og fyrirliðinn vill fá góðan stuðning áhorfenda. Leikurinn hefur gríðarlega þýðingu um framhaldið hjá landsliðinu.

„Maður veit aldrei almennilega hvernig þetta raðast en sigur gegn Belgíu hlýtur að fara langleiðina með þetta fyrir okkur. Belgía er með rosa gott lið og eru miklu meiri íþróttamenn en Kýpverjarnir. Þeir eru stórir og sterkir og verða erfiðir. Við verðum að fá fulla stúku til að gera þeim erfitt fyrir. Vonandi mæta þeir pínu værukærir til leiks,“ sagði baráttumaðurinn Hlynur Bæringsson, þreyttur en sáttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert