Verðum að ná upp góðri stemmningu

Ólafur Ólafsson og Martin Hermannsson, leikmenn íslenska karlalandsliðsins í körfubolta.
Ólafur Ólafsson og Martin Hermannsson, leikmenn íslenska karlalandsliðsins í körfubolta. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það eru allir klárir í að bæta upp fyrir tapið gegn Sviss. Það þýðir ekkert að pæla í því sem er liðið og við einbeitum okkur bara að því að ná markmiðum okkar. Vonandi náum við að komast aftur í lokakeppni og það er eins gott að við verðum klárir í slaginn,“ sagði Martin Hermannsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, í samtali við mbl.is, en Ísland mætir Kýpur í undankeppni Evrópumótsins 2017 í Laugardalshöllinni í kvöld. 

„Það vantaði svolítið upp á baráttuna og þau einkenni sem hafa einkennt okkur í gegnum tíðina. Það er að leggja allt sem við eigum í leikina og vinna saman. Við verðum að ná upp baráttu og stemmningu ef við ætlum að vinna Kýpur. Það væri frábært að fá fulla höll til þess að ná upp þeirri stemmningu,“ sagði Martin sem leikið hefur afar vel fyrir Ísland í undankeppninni.

„Við þurfum að ná að stjórna ferðinni í leiknum. Þeir eru svipað háir og svona um það bil á pari í líkamlegum styrk. Liðin eru svipuð að styrkleika, en ég tel okkur vera aðeins sneggri. Þetta mun hins vegar snúast um það hvort liðið nær að spila betri vörn og setur opnu skotin niður held ég. Vonandi verðum það við sem gerum það,“ sagði Martin, spurður um hvernig hann sæi leikinn þróast í kvöld. 

Leikur Íslands og Kýpur hefst klukkan 20.15 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert