Hlynur í liði umferðarinnar

Hlynur Bæringsson tekur frákast í leik Íslands og Kýpur í …
Hlynur Bæringsson tekur frákast í leik Íslands og Kýpur í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, var verðlaunaður fyrir frammistöðu í sigri íslenska liðsins gegn Kýpur í gærkvöldi með sæti í úrvalsliði umferðarinnar inni á vefsíðu Fiba Europe. 

Hlynur, sem í gær var heiðraður fyrir sinn 100. leik fyrir íslenska landsliðið, skoraði 18 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum. Hlynur er í félagsskap með Goran Dragic (Slóveníu), Retin Obasohan (Belgíu), Milalem Halilhovic (Bosníu & Hersegóvínu) og Tornike Shengelia (Georgíu) í liði umferðarinnar. 

Hlynur hefur leikið afar vel í riðlakeppninni, en hann er þriðji hæstur á listanum yfir mesta framlagið af öllum leikmönnum í riðlakeppninni, þá er hann annar á listanum yfir flest fráköst og níundi stoðsendingahæsti leikmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert