Ákváðum þetta í klefanum í Berlín

„Ég veit ekki alveg hvernig mér líður, það eru svo margar tilfinningar í gangi. Það eina sem ég veit er að mér líður vel. Það er mikið afrek að mínu mati að ná þessum áfanga aftur og það sýnir styrk liðsins,“ sagði Martin Hermannsson, í samtali við mbl.is, en hann var stigahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í  körfubolta sem tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2017 með 74:68 sigri gegn Belgíu í lokaumferð undankeppninnar í dag. 

„Það voru margir kostir í stöðunni til þess að fara áfram og það var skrítið að tapa í síðustu undankeppni en fara samt áfram. Það er miklu skemmtilegra að vinna og tryggja okkur sætið í lokakeppninni með sigri. Það er gríðarlega góð tilfinning að vinna og ekki síst þegar það er jafn mikið í húfi og i dag. Við vissum líka ekkert hvernig staðan var í öðrum riðlum og vorum ekkert að pæla í því,“ sagði Martin enn fremur um tilfinninguna eftir að hafa tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2017.

„Við erum reynslunni ríkari núna eftir að hafa farið í lokakeppnina áður og við vorum staðráðnir í því strax í klefanum eftir síðasta leikinn í Berlín að við ætluðum að gera þetta aftur. Þegar við komum inn í klefa þá hélt Jón Arnór smá tölu og við ákváðum að við ætluðum að gera þetta aftur. Nú er það í höfn sem er frábært.“

„Það hefur verið bakvið eyrað á mér í allan vetur og svo í sumar hvað mig langaði svakalega mikið að fara aftur í lokakeppnina. Maður fann það strax þegar við byrjuðum að æfa fyrir undankeppnina og svo þegar alvaran hófst hvað alla langaði að komast í lokakeppnina. Æfingarnar voru góðar og við höfum heilt yfir leikið vel í þessari undankeppni.“

„Það sýnir líka styrk liðsins og þá breidd við við höfum á að skipa að við gerum þetta án þess að Pavel [Ermolinski] sé með og þá er Jakob [Sigurðarson] nýhættur. Mér finnst frábært að sjá hvað aðrir hafa bætt við sig í fjarveru þeirra. Ég verð líka að minnast á það hvað ég er ánægður með hvað Kristófer hefur leikið vel í undankeppninni,“ sagði Martin um undankeppnina í heild sinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert