Þessi lið verða á EM

Martin Hermannsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson fagna EM-sætinu í dag.
Martin Hermannsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson fagna EM-sætinu í dag. mbl.is/Ófeigur

Eins og ítarlega hefur verið greint frá hér á mbl.is þá mun íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik spila á lokamóti Evrópumótsins á næsta ári. Ljóst er hvaða lið taka þátt á mótinu.

Sjá: Ísland á EM í annað sinn í röð

24 þjóðir keppa í fjórum riðlum, en sá háttur verður á líkt og á EM í fyrra að riðlarnir eru spilaðir í fjórum löndum. Nú fara þeir fram í Finnlandi, Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi, en auk þeirra komust níu efstu liðin frá síðasta móti  beint í lokakeppnina. Í undankeppninni sem lauk í dag voru svo síðustu ellefu sætin í boði. Dregið verður í riðla þann 22. nóvember næstkomandi.

Þjóðirnar á EM 2017:

Belgía
Bretland
Króatía
Finnland
Frakkland
Georgía
Grikkland
Ísland
Ísrael
Ítalía
Lettland
Litháen
Pólland
Rúmenía
Rússland
Serbía
Slóvenía
Spánn
Svartfjallaland
Tékkland
Tyrkland
Ungverjaland
Úkraína
Þýskaland

Allar 24 þjóðirnar hafa áður leikið á EM og Ísland er eina landið sem hefur aðeins einu sinni komist þangað áður. Bretland (þrisvar) og Tékkland (fjórum sinnum) eru þau önnur lönd sem sjaldnast hafa leikið í lokakeppninni.

Eftir sigurinn á Belgum í dag stóð Ísland uppi með næstbesta árangur þeirra liða sem enduðu í 2. sæti riðlanna. Svartfjallaland varð fyrir ofan og síðan voru það Bretland og Úkraína sem hrepptu þriðja og fjórða EM-sætið. Þau þrjú lið í 2. sæti sem sátu eftir voru síðan Holland, Bosnía og Eistland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert