Hélt smá tölu í klefanum í Berlín

Jón Arnór Stefánsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, sækir að …
Jón Arnór Stefánsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, sækir að körfu belgíska liðsins í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Tilfinningin er alltaf hálfskrítin á svona sigurstundum. Á stundum eins og þessum þá ferðu að hugsa til baka um leiðina að settu marki. Við ákváðum að fara áfram í lokakeppnina í klefanum í Berlín og nú er það í höfn sem er frábært,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður íslenska karlalandsliðins í körfubolta, eftir 74:68 sigur liðsins gegn Belgíu sem þýðir að íslenska liðið tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2017.  

„Að þessu sinni eru það stundir eins og tapið á móti Sviss, langt ferðalag sem við fórum í og hversu andlega þreyttir við vorum á tímabili. Svo er auðvitað nærtækast sá andlegi styrkur sem við sýndum með því að klára þetta með sigri í þessum leik,“ sagði Jón Arnór.

„Það má ekki gleyma því að Belgía er með mjög gott lið og það er meira en að segja það að leggja þá að velli. Nú fer maður að hugsa um allt ferðalagið, það er allan tímann frá því að við lukum keppni í Berlín í síðustu lokakeppni Evrópumótsins. Allar æfingarnar, þann tíma þegar við settumst niður og ákváðum að gera allt sem við gátum til að endurtaka leikinn og svo auðvitað góðu stundirnar í undankeppninni.“

„Það var gríðarlegt afrek að komast í lokakeppni í fyrsta skipti og jafnvel enn meira afrek að komast í lokakeppni núna; tvö skipti í röð. Við ákváðum það í klefanum eftir síðasta leikinn í síðustu lokakeppni að við yrðum að komast þangað aftur. Ég bað þar um orðið og hélt smá tölu, sem er eitthvað sem ég er ekki vanur. Á þeim tímapunkti var ég eiginlega ákveðinn í að hætta í körfubolta, en þar sagði ég við strákana að þetta hefði verið svo skemmtilegt að við yrðum að gera þetta aftur.“

Göngum reynslunni ríkari til leiks að þessu sinni

„Það sem gerir afrekið enn magnaðra er að við gerum þetta án Pavels [Ermolinski] og Jakobs [Sigurðarsonar] sem hafa leikið stórt hlutverk í þessu liði undanfarin ár. Það eru leikmenn sem fylla þeirra skarð eins og Martin [Hermannsson], Elvar [Már Friðriksson], Kristófer [Acox] og fleiri. Það eru yngri leikmenn að axla mikla ábyrgð, það er ný kynslóð að taka við keflinu og framtíðin er gríðarlega björt hjá okkur.“

„Ég er ofboðslega þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu á lokasprettinum á ferlinum mínum. Það er að upplifa svona góða tíma með landsliðinu. Við förum reynslunni ríkari í lokakeppnina núna og það er alveg klárt að við setjum stefnuna á að gera betur þar en síðast. Við ætlum ekki bara að vera með og það væri frábært að ná að vinna leik í lokakeppni Evrópumóts.“

„Það þurfti vel menntaðan stærðfræðing til þess að skilja hvernig staðan var í riðlinum og það er enginn slíkur í leikmannahópnum. Við ákváðum því að það væri bara best að klára þetta sjálfir með því að sigra Belga og það er frábært að það hafi tekist. Með því að leggja Belga að velli sýnum við og sönnum hversu langt liðið er komið. Við hefðum ekki komist hingað án þess hversu vel KKÍ hefur staðið að málum eða án þess frábæra stuðnings sem við fengum hér í stúkunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert