Ísland á EM í annað sinn í röð

Ísland tryggði sér þátttökurétt í lokakeppni Evrópumóts karla í körfubolta með 74:68 sigri sínum gegn Belgíu þegar liðin mættust í síðustu umferð í undankeppninnar í Laugardalshöllinni í dag. 

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiksins, en um miðjan fyrsta leikhluta náðu Belgar undirtökunum í leiknum og náðu mest 14 stiga forskoti um miðjan annan leikhluta. Þá herti íslenska liðið tökin í vörninni og stig af vítalínunni og hröðum sóknum urðu til þess að forskot Belga var einungis þrjú stig þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermansson drógu vagninn í sóknarleik íslenska liðsins í fyrri hálfleik og það mæddi mikið á Hlyni Bæringssyni bæði í vörn og sókn. Hörður Axel hóf síðan þriðja leikhluta með því að setja niður þriggja stiga skot og setti tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Kristófer Acox átti sterka innkomu af bekknum í seinni hálfleik og lét hraustlega til sín taka bæði í vörn og sókn. Kraftmikil troðsla Kristófers undir lok þriðja leikhluta kveikti i íslensku stuðningsmönnunum sem troðfylltu Laugardalshöllina.

Ísland var fjórum stigum yfir þegar fjórða leikhluti hófst og íslenska liðið sigldi síðan i hús sex stiga sigri sem tryggir liðinu sæti í lokakeppni annað skiptið í röð. Reynsla Loga Gunnarssonar og Jóns Arnórs Stefánssonar vóg þungt í lokahluta leiksins og stig þeirra á ögurstundu áttu stóran þátt í að landa sigrinum.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 18, Haukur Helgi Pálsson 11, Hlynur Bæringsson 10, Jón Arnór Stefánsson 10, Kristófer Acox, Hörður Axel Vilhjálmsson 8, Logi Gunnarsson 8,  

40. Leik lokið með 74:68 sigri Íslands sem hefur þar af leiðandi tryggt sér þátttökurétt í lokakeppni EM 2017. 

39. Ísland – Belgía, staðan er 70:68. Hörður Axel kemur Íslandi níu stigum yfir þegar 2:31 er eftir. Belgía tekur leikhlé. Belgía minnkar muninn með þriggja stiga körfu. Belgía minnkar muninn í fjögur stig af vítalíbunni. Belgía minnkar muninn í tvö stig af vítalínunni 45 sekúndur eftir.  

37. Ísland – Belgía, staðan er 68:61. Jón Arnór eykur muninn fyrir Ísland með tveggja stiga körfu. Belgar minnka muninn með þriggja stiga körfu strax í kjölfarið. 

36. Ísland – Belgía, staðan er 66:57. Logi Gunnarsson kemur Íslandi sex stigum yfir með þriggja stiga körfu og Martin Hermannsson bætir um betur með þriggja stiga körfu. Belgar minnka muninn af vitalínunni.  

33. Ísland – Belgía, staðan er 58:55. Haukur Helgi og Jón Arnór skora fyrir Ísland, en Belgía svarar með tveimur þriggja stiga körfum. Hlynur eykur mnuninn af vítalínunni. 

30. Þriðja leikluta er lokið. Ísland – Belgía, staðan er 53:49. Ísland hafði betur í þessum leikhluta, 19:12. Frábær barátta í íslenska liðinu og Kristófer Acox hefur leikið vel bæði í vörn og sókn. Martin er ennþá sitgahæstur með 13 stig. Sigur fleytir Íslandi í lokakeppni EM 2017.  

29. Ísland – Belgía, staðan er 52:47. Kristófer Acox treður af miklum krafti og kveikir í íslensku stuðningsmönnunum í Laugardalshöllinni. 

27. Ísland – Belgía, staðan er 50:47. Logi Gunnarsson hefur leikið afar vel undanfarnar mínútur og skorað fjögur stig á skömmum tíma. Martin Hermannsson er stigahæstur í íslenska liðinu með 13 stig. Haukur Helgi Pálsson er kominn með þrjár villur. 

26. Ísland – Belgía, staðan er 43:41. Martin Hermannsson jafnar metin og Kristófer Acox kemur íslenksa liðinu síðan yfir. 

23. Ísland – Belgía, staðan er 39:37. Hörður Axel jafnar metin með þriggja stiga körfu. Martin kemur Íslandi yfir með tveggja stiga körfu. 

20. Hálfleikur. Ísland – Belgía, staðan er 34:37. Góður kafli hjá íslenska liðinu undir lok annars leikhluta. Vörnin var firnasterk og Haukur Helgi og Hörður Axel hafa spilað vel í sókninni. Kristófer Acox jafnaði metin af vítalínunni. Belgar svöruðu með þriggja stiga körfu. Haukur Helgi Pálsson er stigahæstur í íslenska liðinu með níu stig. 

18. Ísland – Belgía, staðan er 27:34. Hlynur Bæringsson er kominn með þrjár villur serm eru slæm tíðindi fyrir íslenska liðið. Hlynur, Martin og Haukur Helgi eru stigahæstir með sjö stig. Kristófer Acox minnkar muninn í sjö stig.  

14. Ísland – Belgía, staðan er 23:29. Ísland er að herða tökin í varnarleiknum og áræðnin í sóknarleiknum að aukast. Martin minnkar muninn í níu stig af vítalínunni. Haukur Helgi bætir um betur með þriggja stiga körfu.  

13. Ísland – Belgía, staðan er 15:27. Belgar byrja leihlutann og íslenska þjálfarateymið tekur leikhlé. Skotin eru ekki að detta hjá íslenska liðinu og Belgar refsa með hröðum sóknum í kjölfarið.  

10. Fyrsta leikhluta er lokið. 14:21. Hlynur Bæringsson er stigahæstur hjá íslenska liðinu með sex stig og Martin Hermannsson hefur skorað fimm stig. Haukur Helgi Pálsson hefur skorað þrjú stig. 

8. Ísland - Belgía, 12:17. Belgarnir skora fjögur stig í röð, en Hlynur Bæringsson lagar síðan stöðuna af vítalínunni. 

6. Ísland - Belgía, 10:13. Belgarnir komust fimm stigum yfir, en Hlynur Bæringsson minnkaði munni í þrjú stig.   

4. Ísland - Belgía, 8:8. Haukur Helgi fyrsti íslenski leikmaðurinn til þess að skora þegar hann setur niður þriggja stiga körfu og jafnar metin í 8:8.

3. Ísland - Belgía, 5:6. Martin kom Íslandi yfir, en Belgar svara með sex stigum í röð. Martin svarar með þriggja stiga körfu.  

1. Leikurinn er hafinn. Byrjunarlið Íslands: Martin, Jón Arnór, Hörður Axel, Haukur Helgi og Hlynur.

Lið Íslands: 6. Kristófer Acox, 7. Sigurður Gunnar Þorsteinsson, 8. Hlynur Bæringsson, 9. Jón Arnór Stefánsson, 10. Ægir Þór Steinarsson, 12. Elvar Már Friðriksson, 13. Hörður Axel Vilhjálmsson, 14. Logi Gunnarsson, 15. Martin Hermannsson, 24. Haukur Helgi Pálsson, 34. Tryggvi Snær Hlinason, 88. Brynjar Þór Björnsson.

Lið Belgíu: 4. L. Bosco, 6. O. Ojomoh, 8. J. Mwema, 9. B. Eboma 11. L. Schwartz, 12, J. Salamu.-, 14. M. De Zeeuw, 15. K. Boukichou, 16. K. Tumba, 17. H. Vanwijn, 19. I. Larochevitch, 21. V. Kesteloot. 

0. Kýpur hafði betur, 92:78, í hinum leik riðilsins í dag sem eru jákvæð tíðindi fyrir íslenska liðið. Það er því ljóst í sigur hjá íslenska liðinu mun tryggja liðinu sæti í lokakeppninni. 

0. Ísland er í 2. sæti riðilsins með 8 stig fyr­ir síðustu um­ferðina, tveim­ur stig­um á eft­ir Belg­íu sem er nú þegar búin að tryggja sér efsta sætið og þar með sæti á Evr­ópu­mótið sem fer fram á næsta ári.

0. Íslenska liðið sigraði Kýp­ur á miðviku­dag og eru marg­ir mögu­leik­ar í stöðunni. Fjög­ur lið með best­an ár­ang­ur í öðru sæti kom­ast einnig á mótið en þar er ís­lenska liðið í tví­sýnni bar­áttu við lið í öðrum riðlum og aðrir leik­ir sem fram fara í dag geta haft mik­il áhrif á út­kom­una.

Farið var yfir möguleika íslenska liðsins til þess að komast áfram í lokakeppnina í þessari frétt mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert