Langaði að vera með en ákvörðunin stendur

Jakob Örn Sigurðarson
Jakob Örn Sigurðarson mbl.is/Ómar

„Jæja, best að fara að koma sér í form. #EuroBasket2017.“ Þetta skrifaði körfuknattleiksmaðurinn Jakob Örn Sigurðarson á Twitter á laugardag eftir að ljóst varð að Ísland hefði tryggt sér sæti í lokakeppni EM í annað sinn.

Fyrir undankeppnina, í ágúst, hafði Jakob greint frá því í samtali við Vísi að hann væri hættur með landsliðinu. Jakob viðurkennir að hann hafi vissulega klæjað í fingurgómana að taka þátt í undankeppninni, sérstaklega á meðan hann fylgdist með leikjunum í sjónvarpi, en segir ákvörðun sína standa. Ummælin á Twitter hafi verið sett inn til gamans, og hann hafi leikið sinn síðasta landsleik.

„Auðvitað kom upp sú tilfinning að mann langaði að vera með strákunum, og maður saknaði þess að vera með, en þetta sem ég skrifaði á Twitter var bara í gríni. Stefnan er ekki sett á eitthvert „comeback“ eins og síðast,“ sagði Jakob, sem var heldur ekki með í undankeppni EM 2015 en lék svo í lokakeppninni í Berlín.

„Ég gaf það út að ég væri hættur og sú ákvörðun stendur. Það væri heldur ekki sanngjarnt gagnvart strákunum að ég væri alltaf að koma aftur inn þegar þeir kæmust á stórmót. Þeir sem spiluðu, og unnu fyrir þessu, eiga skilið sín sæti í liðinu,“ sagði Jakob, sem lengi var burðarás í íslenska landsliðinu og lék á 15 árum alls 85 landsleiki.

Sjá allt viðtalið við Jakob í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert