„Ekki fallegasti leikurinn“

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, á hliðarlínunni í kvöld.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta var mikil barátta, eins og við vissum að þetta yrði. Ég er mjög ánægður með að landa sigri en þetta var ekki fallegasti leikurinn,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshöfn eftir 74:71 sigur á Keflavík í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.

Sjá: Þórsar­ar héldu haus gegn Kefl­vík­ing­um

„Það var margt sem ég var mjög ánægður með. Við gerðum mjög vel gegn Kananum þeirra og mér fannst hann alveg sprunginn hérna í restina. Þannig að það var dugnaður í stóru strákunum okkar þar,“ sagði Einar Árni og hrósaði varnarleik liðsins.

„Við héldum þeim í 71 stigi þannig að það er alveg hægt að segja að vörnin hafi gefið okkur þetta. Tobin [Carberry] var auðvitað mjög sterkur að skora fyrir okkur og opna varnirnar. En við unnum okkur ákveðið svigrúm með þéttleikanum í vörninni.“

Þó að Þórsarar hafi haft frumkvæðið lengst af þá voru lokasekúndurnar spennandi og Keflvíkingum bauðst að knýja fram framlengingu í síðustu sókn sinni, sem þeir klúðruðu.

„Okkur vantaði að setja niður skotin á lokakaflanum og við hefðum getað spilað betur úr þessu í lokin. En ef við vinnum þá erum við ánægðir. Þetta er búin að vera erfið vika að bíða eftir þessum leik, eftir tapið gegn Grindavík í 1. umferðinni. Vikan var snúin, en samt góð. Við æfðum vel  og lögðumst vel yfir Keflavíkurliðið. Mér fannst okkur takast nokkuð vel til að loka á þeirra helstu vopn,“ sagði Einar Árni.

„Það var helst að Maggi vinur minn Trausta gerði okkur óleik í seinni hálfleiknum þegar þeir komust inn í þetta. Hann kom inn og laumaði nokkrum en hann reynist okkur alltaf erfiður enda frábær leikmaður. Keflvíkingarnir eru með hörkulið og Hörður Axel færir þeim mikil gæði og mikla reynslu og leikstjórnun. Menn eru að spá Keflavík 8. sætinu en þetta er eitt af sterkustu liðunum og með þennan mannskap þá er 8. sætið ekki málið,“ sagði Einar Árni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert