Átti ekki von á því að liðið yrði svona gott

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Eva Björk

Landsliðsmaðurinn Ólafur Ólafsson var í stóru hlutverki hjá Grindavík þegar liðið lagði Hauka að velli, 92:88, eftir framlengingu í Dominos-deildinni í körfuknattleik. Morgunblaðið tekur Ólaf til umfjöllunar að umferðinni lokinni en hann skoraði 18 stig, tók 15 fráköst og náði boltanum tvisvar af andstæðingunum.

„Við þiggjum alla sigra og ég lít þannig á að allir sigrar í vetur séu ljúfir vegna þess að við erum ekki jafn vel mannaðir og síðustu ár. Eftir landsliðsverkefnið vissi ég eiginlega ekki við hverju ég átti að búast. Ég hafði eiginlega ekkert æft með liðinu en hafði hitt leikmennina. Ungu strákarnir komu mér svolítið á óvart. Ég átti ekki von á því að liðið yrði svona gott en ungu leikmennirnir hafa verið mjög duglegir að mæta á aukaæfingar. Þeir ætla sér greinilega að nýta tækifærið eins vel og þeir geta,“ sagði Ólafur þegar Morgunblaðið spjallaði við hann.

Ólafur sneri heim í sumar eftir dvöl í Frakklandi og honum sýnist mörg lið í deildinni vera býsna jöfn að getu. „Mér finnst að KR, Stjarnan og Tindastóll gætu skorið sig úr í efri hlutanum. Í neðri hlutanum verður Snæfell væntanlega í fallbaráttunni, með fullri virðingu fyrir þeim. Fyrir utan þessi fjögur lið gæti deildin verið einn stór pakki. Allir geta unnið alla þegar tvö þessara átta liða eigast við,“ sagði Ólafur og tekur það fram að hann myndi frekar vilja sjá 3+2 reglu varðandi erlenda leikmenn heldur en 4+1 regluna sem er í gildi.

Nánar er rætt við Ólaf í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert