„Trúi ekki að þær séu ánægðar með frammistöðuna“

Frá leik liðanna í Hafnarfirði í kvöld.
Frá leik liðanna í Hafnarfirði í kvöld. mbl.is/Ófeigur

„Þær fóru að pressa okkur og þrátt fyrir að við værum búin að fara vel yfir þetta í vikunni þá réðum við ekki verið pressuna,“ sagði Ingvar Guðjónsson, þjálfari Hauka, um hvað hafi farið úrskeiðis hjá sínu liði í kvöld í 69:42 tapi gegn Snæfelli í Dominos-deild kvenna í körfubolta.

„Við töpum allt of mörgum boltum, fáum körfur í andlitið og eigum erfitt með að ná skotum á körfuna, á sama tíma dettur vörnin hjá okkur alveg niður. Við spilum enga vörn í 2. leikhluta og þær keyra yfir okkur,“ sagði Ingvar við mbl.is í kvöld.

Snæfelli var spáð Íslandsmeistaratitlinum fyrir mót og koma þessi úrslit ekki mjög mörgum á óvart en Ingvar segir sitt lið geta gert mikið betur en þetta.

„Við getum gert mikið betur en þetta. Ég trúi ekki að þær séu ánægðar með frammistöðuna í dag. Þetta er vissulega gott Snæfell en við eigum að geta gert miklu betur,“ sagði Ingvar og hélt áfram.

„Frammistaðan var ekki góð, við erum að fá framlag frá allt of fáum. Það gengur ekki upp. Við verðum að fá framlag frá fleirum til að eiga séns á að ná í sigra í þessari deild,“ sagði Ingvar.

„Byrjunin er ekki nógu góð. Í samræmi við væntingar og spá er þetta kannski í lagi en mér finnst við eiga meira inni en við verðum að spila mikið betur en hérna í kvöld.“

Lið Hauka er mjög ungt í vetur og Ingvar segir þær fá mikla reynslu í vetur.

„Við erum í uppbyggingartímabili og þetta eru stelpur sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þetta er reynsla fyrir þær en þær verða að bregðast jákvætt við biðinni og verða að læra hratt,“ sagði hann.

Ingvar Guðjónsson.
Ingvar Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert