Finnur hrósaði ungu leikmönnunum

Arnór Hermannsson með boltann í leiknum í kvöld.
Arnór Hermannsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KR, sagðist hafa lagt áherslu á að stöðva Lewis Clinch hjá Grindavík í Dominos-deildinni í kvöld og var ánægður með hversu vel það heppnaðist. 

„Mér fannst okkur hafa tekist að kortleggja þá vel og strákarnir gerðu vel varnarlega. Sterkir leikmenn hafa spilað vel hjá Grindavík eins og Clinch sérstaklega sem var frábær í fyrstu tveimur leikjunum. Eðlilega lögðum við áherslu á að stoppa hann. Darri gerði mjög vel gegn honum og heildar varnarvinnan var mjög flott. Í sókninni finnum við alltaf glufur og hægt og rólega komst sóknin í gang. Auðvitað er auðveldara að fá sóknina í gang þegar þér tekst að stöðva sóknir andstæðingsins trekk í trekk,“ sagði Finnur þegar mbl.is tók hann tali þegar úrslitin lágu fyrir: 87:62 fyrir KR. 

Eins og fram hefur komið er KR án landsliðsmannanna Jóns Arnórs Stefánssonar og Pavels Ermoliskij. Þá er Cerick Bowen nýkominn og lék sinn fyrsta leik. Auk þess hafa orðið breytingar á liðinu því Helgi Már Magnússon er hættur, Björn Kristjánsson farinn til Njarðvíkur og Sigurður Þorvaldsson kominn í staðinn. Ofan á þetta bætist að Finnur eyddi miklum tíma í landsliðsverkefni í undankeppni EM sem aðstoðarþjálfari. 

Finnur segist aldrei hafa átt von á öðru en liðið myndi spjara sig í upphafi tímabils. „Við vissum að við myndum vera með sterkt lið. Þótt menn vanti þá erum við með stráka sem kunna þetta alveg. Ferskir vindar hafa komið með ungum strákum eins og Arnór og Vilhjálmur sérstaklega. Þótt tölfræðin sé ekki þess eðlis að þeir fái mikið lof fyrir hana þá eru þeir að leggja mikla vinnu á sig. Þeir spila fína vörn og staðsetningar og ákvarðanataka í góðu lagi. Þeir hafa verið virkilega flottir. Undanfarin ár hafa þeir æft með mönnum úr aðalliðinu og því er búið að lemja þá til ef svo má að orði komast. Þegar tækifærið kemur þá er sviðið minna en þeir kannski halda því þeir hafa spilað á móti frábærum mönnum á æfingum síðustu árin,“ sagði Finnur Freyr. 

Finnur Freyr Stefánsson
Finnur Freyr Stefánsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert