Mótspyrna Snæfells í Keflavík dugði skammt

Guðmundur Jónsson og félagar í Keflavík máttu þola naumt tap …
Guðmundur Jónsson og félagar í Keflavík máttu þola naumt tap gegn Þór Þorlákshöfn í fyrsta útileik sínum á tímabilinu. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Keflavík vann í kvöld öruggan sigur á Snæfelli í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta. Snæfell byrjaði leikinn vel og var 27:19 yfir eftir 1. leikhluta, en það dugði skammt.

Keflavík náði forystunni um miðjan 2. leikhluta og var 48:43 yfir í hálfleik, en munurinn var orðinn sautján stig fyrir lokafjórðunginn, 76:59. Gestirnir úr Stykkishólmi náðu aldrei að hleypa spennu í leikinn eftir það.

Amin Stevens var stigahæstur Keflavíkur með 32 stig en Ágúst Orrason og Guðmundur Jónsson skoruðu 22 stig hvor. Hjá Snæfelli var Sefton Barrett stigahæstur með 24 stig.

Keflavík er því með fjögur stig en liðið vann Njarðvík í fyrsta leik sínum á tímabilinu, 88:82, en tapaði svo fyrir Þór Þorlákshöfn í síðustu viku, 74:71. Snæfell, sem spáð er falli úr deildinni, er enn án stiga en liðið tapaði 96:65 fyrir ÍR í fyrsta leik og svo 104:83 gegn Njarðvík fyrir viku.

Keflavík - Snæfell, 111:82
(19:27 - 48:43 - 76:59 - 111:82)

Leik lokið. Öruggur sigur Keflavíkur í höfn eftir góða byrjun gestanna. Lokatölur 111:82.

35. Staðan er 91:73 og engin hætta á öðru en að Keflavík fari með sigur af hólmi.

Leikhluta 3 lokið (76:59). Keflavík náði fljótt tíu stiga forskoti í seinni hálfleik og er með sautján stiga forskot fyrir lokafjórðunginn.

Leikhluta 2 lokið (48:43). Keflavík var ekki lengi að ná forystunni í öðrum leikhluta, eða rúmar fjórar mínútur. Munurinn í hálfleik er fimm stig, 48:43. Guðmundur Jónsson er með 16 stig fyrir Keflavík og Ágúst Orrason 15. Hjá Snæfelli er Sefton Barret með 13 stig og Sveinn Arnar Davíðsson 12.

Leikhluta 1 lokið (19:27). Óvænt staða í Keflavík. Keflavík komst í 8:1 en Snæfell jafnaði metin í 15:15 og skoraði svo næstu níu stig. Sefton Barrett setti svo niður góðan þrist og kom muninum í 10 stig, 27:17, áður en Ágúst Orrason minnkaði muninn með lokakörfu leikhlutans. Barrett og Guðmundur Jónsson skoruðu 10 stig hvor í 1. leikhluta.

1. Leikur hafinn! 
Þessir byrja inná hjá Keflavík: Magnús Már Traustason, Guðmundur Jónsson, Andrés Kristleifsson, Amin Stevens, Reggie Dupree.
Þessir byrja inná hjá Snæfelli: Viktor Marínó Alexandersson, Sefton Barrett, Þorbergur Helgi Sæþórsson, Árni Elmar Hrafnsson, Maciej Klimaszewski.

0. Keflavík er án landsliðsmannsins Harðar Axels Vilhjálmssonar sem hefur samið við belgíska félagið Limburg United til eins mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert