Stjórnaði liðinu eins og herforingi

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Þór töpuðu fyrir Skallagrími.
Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Þór töpuðu fyrir Skallagrími. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það ætlar að ganga erfiðlega fyrir Þór frá Akureyri að landa sínum fyrsta sigri í Dominos-deild karla í körfubolta. Í kvöld voru Skallagrímsmenn úr Borgarnesi í heimsókn og fóru þeir heim með öll stigin eftir að hafa verið yfir nánast allan leikinn. Lokatölur urðu 81:90 en jafnt var 76:76 þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir af leiknum.

Sem fyrr segir þá voru Borgnesingar yfir nánast allan leikinn en Þór sótti stundum hart aþ þeim. Góð innkoma Ingva Rafns Ingvarssonar var lykillinn að því að Þór náði að jafna leikinn fyrir hlé. Í þriðja leikhlutanum var Ingvi Rafn hins vegar frystur en Þór virtist á tímabili ætla að taka frumkvæðið. Það entist þó stutt og Skallagrímur sigldi fyrsta sigri tímabilsins í höfn með öguðum leik.

Skallagrímsmenn voru að spila vel í kvöld. Darrell Flake var ótrúlega flottur og skoraði mikið. Flenard Whitfield var einnig mjög sterkur, skoraði 29 stig og tók 12 fráköst. Mikilvægasti leikmaðurinn var hins vegar Sigtryggur Arnar Björnsson en með hann inná vellinum var leikur Skallagríms í góðum höndum. Hann stjórnaði liðinu eins og herforingi. Það var einmitt á þeim kafla sem hann var hvíldur að Þórsarar tóku forustuna í leiknum.

Og talandi um mikilvægar skiptingar. Sigtryggur Arnar kom inn og skömmu síðar fór Tryggvi Snær Hlinason í hvíld hjá Þór. Við það urðu mikil umskipti og Skallagrímur fór aftur í gang, seig framúr á ný og leit aldrei til baka. Tryggvi Snær var geysimikilvægur fyrir Þór í þessum leik og var með flottar tölur en einhverra hluta vegna var hann ekki notaður nóg og litlu mennirnir einokuðu boltann og fóru full illa með hann. Jalen Ross Riley virtist á einhverjum tímapunkti ætla að taka góða rispu en það fjaraði strax út og maðurinn hitti ekki neitt í lokaleikhlutanum og skaut Þórsara hreinlega út úr leiknum. Hann endaði í skelfilegri tölfræði ásamt Danero Thomas sem var kominn í villuvandræði snemma leiks.

Það sem stendur upp út hjá Þór er að lykilmenn eru ekki að skila sínu. Þeir sem komu af bekknum stóðu sig allir mjög vel og spurning er hvort Benedikt Guðmundsson þjálfari ætli að halda sama skipulagi eða stokka liðið eitthvað upp fyrir næsta leik. 

Þór Akureyri - Skallagrímur, 81:90
(18:26 - 49:49 - 68:69 - 81:90)

Leiknum er lokið (81:90). Rétt eftir að Tryggvi Snær var búinn að troða, jafna leikinn í 76:76 og kveikja í áhorfendum var staðan orðin 76:82. Skallarnir léku vel og skynsamlega á meðan Þór klikkaði á upplögðum færum. Tryggvi tróð aftur og minnkaði muninn. Hann fékk skömmu síðar slæma byltu en reis upp fljótlega. Skallagrímsmenn voru betri á lokasprettinum og lönduðu að lokum sanngjörnum sigri.

36. (76:76) Skallagrímur byrjaði lokaleikhlutann að krafti og kom sér í 68:74. Maggi Gunn virtist heitur en Þórsararnir löguðu varnarleikinn og börðust um hvert frákast. Það skilaði sér í mörgum aukaskotum og Þór minnkaði muninn. Var svo stiginn ógurlegur dans mistaka og skota sem fóru forgörðum. Tryggvi Snær jafnaði svo leikinn með fyrstu troðslu leiksins. 

Þriðja leik­hluta lokið (68:69). Þórsarar tóku völdin í leiknum og voru líklegir til að ná sér í fyrsta sigur tímabilsins. Skallagrímsmenn voru mistækir í leikhlutanum og töpuðu mjög mörgum boltum. Þeir snéru hins vegar blaðinu við undir lok leikhlutans og komust aftur yfir.

25. (66:58) Skallagrímur byrjaði á að skora fimm fyrstu stigin en Þór svaraði og komst í fyrsta skipti yfir í stöðunni 56:54. Tryggvi Snær Hlinason reyndist mikilvægur en hann fór að rífa niður sóknarfráköst sem skiluðu stigum. Jalen Ross Riley fór svo í gang og allt í einu var staðan orðin 66:58.

Öðrum leik­hluta lokið (49:49). Magnús Þór Gunnarsson hóf leikhlutann eins og hann endaði þann fyrsta, með þristi. Sigtryggur Arnar bætti svo tveimur slíkum við og skyndilega var staðan orðin 20:34. Þór bætti leik sinn og fljótlega var staðan 34:38. Munaði miklu að Maggi Gunn fékk tæknivillur og Þór skoraði fimm stig í einni sókn. Skallarnir héldu samt frumkvæðinu með háloftasnillinginn Flenard Whitfield í fararbroddi. Þór saxaði smám saman á gestina, þrátt fyrir nokkrar sendingar út í loftið. Ingvi Rafn minnkaði muninn í 46:49 og jafnaði svo leikinn í 49:49 með lokaskotinu.

Leikhluta 1 lokið (18:26). Danero Thomas hjá Þór var strax kominn með tvær villur, áður en fyrsta mínútan var liðin og Skallarnir búnir að skora fimm fyrstu stigin. Leikurinn var svo jafn um stund en það var áberandi hvernig Skallagrímsmenn klúðruðu endalaust undir körfu Þórs. Þeir hins vegar bættu það upp með því að hirða sóknarfráköst. Skallarnir komust svo í 6:14 og 9:18 áður en heimamenn tóku loks við sér. Thomas fékk svo þriðju villu sína og gestirnir héldu nokkuð góðu forskoti út leikhlutann. Það eru fráköstin sem hafa skipt sköpum til þessa. Skallagrímur er með 16 en Þór aðeins 5.

1. LEIKUR HAFINN! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert